„Set hökuna upp“

Jón Daði Böðvarsson í kunnuglegri stöðu.
Jón Daði Böðvarsson í kunnuglegri stöðu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta hefur verið svolítið erfitt ef ég að segja alveg eins og er,“ segir landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson um dvölina hjá Wolves í vetur en liðið er fimm stigum fyrir ofan fallsæti. 

„Tímabilið byrjaði vel bæði hjá mér persónulega og liðinu. Ég hef spilað mismikið í leikjunum og hef verið inn og út úr byrjunarliðinu. Byrja suma leiki og aðra ekki. Ofan á þetta bætist markaþurrð og leiðindafallbarátta hjá liðinu. Svona lagað getur gerst á knattspyrnuferlinum og er eitthvað sem ég þarf að tækla eins og maður. Ég set hökuna upp og legg áfram hart að mér. Eins leiðinlegt og þetta er þá er mikilvægt að vera jákvæður og reyna að læra af reynslunni,“ sagði Jón Daði þegar mbl.is ræddi við hann á landsliðsæfingu í Parma þar sem liðið undirbýr sig fyrir leikinn gegn Kósóvó í undankeppni HM á föstudagskvöldið. 

„Þetta er spennandi verkefni. Við erum nú í annað skiptið við æfingar hérna í Parma. Fyrir okkur er flott að fá að undirbúa okkur hérna fyrir Kósóvóleikinn,“ sagði Jón Daði sem hefur nánast átt fast sæti í byrjunarliðinu í landsliðinu frá því í upphafi undankeppni EM haustið 2014. Hefur hann oftast haft Kolbein Sigþórsson sér við hlið en einnig Alfreð Finnbogason eða Eið Smára Guðjohnsen. Þeirra nýtur nú ekki við eins og fram hefur komið.

„Auðvitað er leiðinlegt þegar vantar menn. Mér finnst þó vera flottir leikmenn til staðar. Hvort sem ég kem til með að spila eða einhver annar þá reynum við að spila eins vel fyrir liðið og við getum.“

Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert