Fallbaráttunni fylgir mikil pressa

Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson mbl.is/Golli

Íþróttamaður ársins 2016, Gylfi Þór Sigurðsson, segir það óneitanlega vera erfitt til lengdar að berjast um að halda sæti sínu í efstu deild eins og hann hefur fengið að kynnast með Swansea. Að sama skapi sé það mjög gefandi þegar ætlunarverkið tekst eftir mikla baráttu eins og gerðist hjá Swansea á síðustu leiktíð. 

„Síðustu tvö tímabil hafa verið mjög erfið og fallbarátta tekur á. Reyndar er mjög skemmtilegt þegar maður kemst út úr þeirri stöðu og nær að halda sér í deildinni. Auðvitað myndi ég kjósa að vera frekar um miðja deild eða eitthvað ofar heldur en í botnbaráttu. Þetta er mjög erfitt og mikil pressa á manni,“ sagði Gylfi þegar mbl.is ræddi við hann á landsliðsæfingu í Parma á Ítalíu í morgun. 

Mikið hvílir á Gylfa í leikjum Swansea og þar ber hann mikla ábyrgð eins og knattspyrnuunnendur þekkja. Þrátt fyrir álagið þá eru meiðsli sem betur fer ekki að angra þennan lykilmann íslenska landsliðsins. „Nei nei, ekkert til að tala um. Maður er kannski aldrei 100% heill í fótboltanum en ég er í fínu standi og þannig séð er ekkert að angra mig,“ sagði Gylfi við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert