„Hún er nokkuð brött“

Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hversu alvarleg meiðsli landsliðskonunnar Elísu Viðarsdóttur eru en hún meiddist illa á hné eftir aðeins tveggja mínútna leik í leiknum gegn Hollendingum í gær.

„Hún er ekkert rosalega kvalin og getur gengið. Það er ennþá mikill þrýstingur á hnénu þannig að hún getur ekki rétt úr því en hún er nokkuð brött,“ sagði Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is í dag.

„Það á ennþá eftir að meta meiðslin til hlítar en við teljum að þetta sé ekki annað skaði á liðþófa eða liðbandi og að það hafi ekki orðið neitt slit. Þetta leit alls vel út þegar þetta gerðist en við vonum það besta. Þetta er búið að vera ótrúlegt vor hvað meiðslin hjá okkur og ég ætla rétt að vona að þetta sé búið,“ sagði Freyr.

Á Algarve-cup í síðasta mánuði urðu Dóra María Lárusdóttir og Sandra María Jessen fyrir alvarlegum hnémeiðslum. Dóra María sleit aftara krossband og ljóst er að hún verður ekki með á EM í Hollandi í sumar en Sandra sleit fremra krossband í hnénu og ekki er útilokað að hún geti verið með á EM.

Þá ristarbrotnaði Hólmfríður Magnúsdóttir í lok janúar, Dagný Brynjarsdóttir hefur verið að glíma við bakmeiðsli og Harpa Þorsteinsdóttir er nýbyrjað að æfa eftir barnsburð. Freyr heldur enn í vonina um að þær þrjár verði klárar í slaginn áður en flautað verður til leiks á EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert