Fáum miðvörð, bara spurning hvenær

Heimir Guðjónsson þjálfari FH-inga.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH-inga. mbl.isEggert

„Erum við tilbúnir? Það kemur í ljós á sunnudaginn,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir 1:0-tapið gegn Val í Meistarakeppni KSÍ í kvöld.

Bergsveinn Ólafsson var eini eiginlegi miðvörðurinn í leikmannahópi FH í kvöld en Böðvar Böðvarsson lék við hlið hans, í 4-4-2 leikkerfi. Heimir hefur notað þriggja miðvarða varnarlínu í vetur en það var einfaldlega ekki í boði í kvöld þar sem Kassim Doumbia glímir við meiðsli og ekki hefur tekist að landa nýjum miðverði eins og stefnt er að:

„Við höfum ekki náð inn miðverði eins og staðan er í dag, en við erum að vona að það skýrist á næstu dögum. Við munum fá leikmann, það er bara spurning um hvenær hann kemur. Við viljum að sjálfsögðu vanda til verksins,“ sagði Heimir, og bætti við að Doumbia yrði sennilega klár í slaginn eftir fyrstu þrjár umferðir Pepsideildarinnar.

„Við þurftum að gera þetta í dag [nota 4-4-2 kerfið], þar sem við eigum ekki hafsenta í hitt kerfið. Á meðan að svo er þá notum við það sem við kunnum best,“ sagði Heimir. Aðspurður hvort Böðvar yrði að óbreyttu áfram í stöðu miðvarðar sagði þjálfarinn:

„Það er aldrei að vita. Hann stóð sig vonum framar í miðverðinum miðað við það að hann hefur aldrei spilað þessa stöðu áður.“

Vandræðin á fremsta þriðjungnum

FH-ingar töpuðu annað árið í röð fyrir Val í Meistarakeppninni en það kemur líklega ekki að sök ef þeir landa Íslandsmeistaratitlinum eins og í fyrra:

„Auðvitað hefði maður viljað sigur í þessum leik en undirbúningstímabilið hefur gengið ágætlega og við verðum klárir á sunnudaginn,“ sagði Heimir.

„Mér fannst við spila vel úti á vellinum og láta boltann ganga ágætlega. Vandræðin voru á fremsta þriðjungnum þar sem við tókum rangar ákvarðanir, en við fengum samt sem áður góð færi og markvörðurinn varði vel hjá þeim. Við þurfum bara að halda áfram,“ sagði Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert