Hann er frábær spyrnumaður

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, tekur við bikarnum úr hendi …
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, tekur við bikarnum úr hendi Guðna Bergssonar, formanns KSÍ, á Valsvellinum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er bara gaman að taka titil og sigur með sér inn í mótið, en þessi leikur gefur ekki neitt ef við spilum ekki almennilega á sunnudaginn,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson sem gerði sigurmark Vals gegn FH í Meistarakeppni KSÍ í kvöld.

Haukur skoraði markið undir lok fyrri hálfleiks og reyndist það eina markið. Hann skallaði í netið eftir hornspyrnu Danans Nicolas Bögild sem kom til Vals í vetur líkt og landi hans, Nicolaj Köhlert og fleiri leikmenn.

„Þessir nýju menn eru allir að koma mjög vel inn í þetta. Þeir passa vel inn í hópinn og okkar leikstíl. Hann [Bögild] er frábær spyrnumaður og það var í raun erfitt að skora ekki úr þessu færi. Ég var líka kominn það nálægt markinu,“ sagði Haukur.

Honum líst vel á stöðu Valsliðsins nú þegar stutt er í fyrsta leik Íslandsmótsins, en Valsmenn mæta Víkingi Ólafsvík á heimavelli á sunnudagskvöld í 1. umferð:

„Við áttum mjög góða ferð til Bandaríkjanna þar sem við æfðum vel, og tókum okkar lokaundirbúning fyrir mótið. Nú er bara að byrja þetta mót. Það eru allir spenntir fyrir því og vilja byrja. Áfram með þetta,“ sagði Haukur léttur. Hann hefur verið mörg ár í Val en liðið hefur ekki endað ofar en í 5. sæti deildarinnar síðustu ár, en orðið bikarmeistari síðustu tvö ár:

„Við höfum verið í toppbaráttu en svo fer oft að fjara undan þessu þegar líður á mótið. Það vilja allir fótboltamenn berjast um titla og ég er í þessu sporti til að gera eitthvað. Það er kominn tími til að við Valsmenn förum að gera einhverja hluti,“ sagði Haukur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert