Frábært tækifæri gegn besta liði í heimi

Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. mbl.is/Eggert

„Þetta hljómar bara spennandi og skemmtilegt,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir þegar blaðamaður upplýsti hana um hvaða lið eru með Íslandi í undanriðli fyrir heimsmeistaramótið 2019.

Margrét Lára var ekki búin að sjá dráttinn þegar mbl.is heyrði í henni.  „Já, það gat nú verið,“ voru fyrstu viðbrögðin við að heyra um Evrópumeistara Þýskalands, en hin liðin eru Tékkland, Slóvenía og Færeyjar.

„Þegar maður hugsar um það staðreynd að aðeins eitt lið fer beint á HM þá hefði maður óneitanlega viljað sleppa við Þýskaland. En það má ekki gleyma því að þetta er frábært tækifæri fyrir okkur að spila við besta lið í heimi. Maður er strax farin að sjá fyrir sér leikinn, Ísland – Þýskaland, á troðfullum Laugardalsvelli,“ sagði Margrét Lára.

„Þetta er bara frábært fyrir kvennaknattspyrnuna á Íslandi að fá svona stórt landslið hingað og eiga möguleika á að vinna þær. Það er alls engin hræðsla eða óttablandin virðing hjá okkur, bara frekar skemmtilegt fyrir land og þjóð og fá tækifæri til að vinna þær,“ sagði Margrét Lára.

Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. mbl.is/Golli

Höfum sjálfar verið í sporum minni spámanna

„Auðvitað hefði maður viljað fá lið sem er neðar á þessum fræga FIFA-lista en Þýskaland, en kvennafótboltinn er orðinn svo sterkur að þetta er ekki lengur bara spurning um liðið í efsta styrkleikaflokki,“ sagði Margrét Lára, og segir að hin liðin í riðlinum verði einnig verðugir andstæðingar.

„Tékkland er með mjög gott lið og ein af þessum Evrópuþjóðum sem eru í mikilli sókn. Þær frá Slóveníu eru mjög góðar, en Færeyjar er kannski minnsti spámaðurinn. Við höfum nú sjálfar verið í þeim sporum en unnið stærri lið, svo þetta verður bara skemmtilegur riðill.“

Hún segir það virkilega gaman að mæta Færeyjum, en frændþjóðirnar hafa aldrei mæst í undankeppni stórmóts í kvennaflokki.

„Við Valsstelpur fórum í ógleymanlega Evrópuferð til Færeyja á sínum tíma, 2008 eða 2009, og Færeyingar eru miklir höfðingjar heim að sækja og ekki ólíkir okkur. Það er bara gaman að fá að spila landsleik við þær, enda hafa þessi lið ekki mæst svona í alvöruleik held ég. Það er bara gaman, og stutt ferðalag fyrir bæði lið. Eins og að fljúga til Akureyrar,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir létt í bragði við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert