Þór/KA skellti bikarmeisturunum

Hildur Antonsdóttir og Stephany Mayor eigast við í leiknum í …
Hildur Antonsdóttir og Stephany Mayor eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þór/KA er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, en liðið vann 1:0-sigur á bikarmeisturum Breiðabliks fyrir norðan í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var sprellfjörugur og sóttu liðin á víxl. Hvort lið átti tíu skot á mark en flest fóru þau yfir markslána eða voru í lausari kantinum svo lítið reyndi á markverðina. Þór/KA skoraði eina markið eftir tíu mínútna leik og var það Stephany Mayor sem átti það skuldlaust þótt það hafi verið Hulda Ósk Jónsdóttir sem á endanum renndi sér á boltann til að fylgja honum yfir marklínuna.

Hraðinn í seinni hálfleiknum var gríðarlegur og enn sóttu liðin á víxl. Á köflum var eins og tennisleikur væri í gangi, svo hratt gekk boltinn marka á milli. Á lokakaflanum var nokkuð dregið af heimakonum og var þá bara pakkað í vörn og lítið hugsað um annað en að verja naumt forskot liðsins. Sú áætlun gekk eftir því Blikar náðu ekki að jafna þrátt fyrir nokkra pressu.

Þór/KA fagnaði innilega í leikslok ásamt fjölmörgum stuðningsmönnum liðsins. Liðið hefur nú lagt tvö líklegustu meistaraefnin á heimavelli sínum og haldið hreinu. Blikar voru klaufar að skora ekki mark en skot þeirra voru bara ekki nógu góð.

Þór/KA er með sex stig á toppnum eftir tvær umferðir, en liðið vann 1:0-sigur á Val í fyrstu umferðinni. Breiðablik er með 3 stig eftir 1:0-sigur á FH í fyrstu umferð.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Þór/KA 1:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Fanndís Friðriksdóttir (Breiðablik) á skalla sem fer framhjá Var reyndar í rangstöðu en þetta var dauðafæri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert