„Vildi ekki taka neina áhættu“

Steinþór Freyr Þorsteinsson.
Steinþór Freyr Þorsteinsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég fékk smá tak aftan í lærið á sama stað og ég fékk áður en við fórum í æfingaferðina. Ég vildi ekki taka neina áhættu og fór því útaf,“ sagði KA-maðurinn Steinþór Freyr Þorsteinsson við mbl.is í morgun.

Steinþór fór af velli eftir rúmlega hálftíma leik í viðureign Breiðabliks og KA á Kópavogsvellinum í gær en þá var staðan, 1:0, KA-mönnum í vil eftir að Darko Bulatovic skoraði eftir sendingu frá Steinþóri. Nýliðarnir fögnuðu svo sanngjörnum sigri, 3:1.

„Þetta er miklu vægara en síðast. Ég finn aðeins fyrir þessu núna en með góðan styrk og ég trúi ekki öðru en að ég verði búinn að ná mér að fullu áður við mætum FH í Krikanum á mánudaginn,“ sagði Steinþór við mbl.is.

„Það var eðlilega mikil gleði hjá öllum KA-mönnum eftir þennan góða sigur og það var virkilega gaman að sjá alla KA mennina sem mættu á völlinn. Þessi góða byrjun gefur okkur aukið sjálfstrausts og við mætum grimmir og klárir í leikinn við FH-ingana,“ sagði Steinþór Freyr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert