Vill sýna að ákvörðunin hafi verið rétt

Svava Rós Guðmundsdóttir á fullri ferð í leiknum við Val.
Svava Rós Guðmundsdóttir á fullri ferð í leiknum við Val. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Svava Rós Guðmundsdóttir lék á als oddi gegn sínum gömlu samherjum þegar Breiðablik lagði Val að velli 3:0 í 3. umferð Pepsí-deildarinnar í knattspyrnu.

Svava skoraði eitt markanna og lagði upp hin tvö á Kópavogsvellinum. Svava sagðist ekki neita því að hún væri iðulega mjög einbeitt þegar leikir gegn hennar gamla félagi væru á dagskrá.

„Já, það er alltaf sérstakt fyrir mig að spila á móti Val. Ég var í Val í um það bil tíu ár og það er öðruvísi að mæta gömlum liðsfélögum heldur en öðrum andstæðingum. Í þessum leikjum vil ég sýna að rétt ákvörðun hafi verið hjá mér að skipta um lið. Ég er alltaf mjög spennt fyrir því að keppa á móti þeim,“ sagði Svava og var hin ánægðasta með frammistöðu Blikaliðsins að þessu sinni.

„Þetta var baráttusigur. Við börðumst vel saman, öskruðum hver á aðra og það skilaði sér. Við vitum hvernig Valsliðið spilar enda spiluðum við á móti þeim í úrslitaleik Lengjubikarsins en klúðruðum þeim leik. Við ætluðum okkur að gera betur í þetta skiptið og mér finnst hafa komið í ljós að við séum með betra lið.“

Breiðablik hefur unnið báða heimaleiki sína gegn FH og Val án þess að fá á sig mark sem Svava segir lofa góðu. Í millitíðinni tapaði liðið hins vegar fyrir Þór/KA 1:0 á Akureyri. Svava er sæmilega sátt við gengi Blika í upphafi móts.

„Ég gæti alveg verið ánægðari. Við klúðruðum náttúrlega á móti Þór/KA en mér fannst við þó spila vel í þeim leik að mörgu leyti. Nýttum ekki marktækifærin okkar og fengum á okkur klaufamark. Við hefðum getað gert betur en annars er ég sátt,“ sagði Svava en hún er þeirrar skoðunar að deildin sé jafnari en áður.

Sjá allt viðtalið við Svövu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert