Ætlaði mér að skora fyrir ömmu og það tókst

Kristín Erna Sigurlásdóttir.
Kristín Erna Sigurlásdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég var búin að segja að ég ætlaði að skora fyrir ömmu og ég var svo fegin þegar það tókst. Þetta mark og þessi sigur var algjörlega tileinkaður henni,“ sagði Kristín Erna Sigurlásdóttir, markahrókur úr Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið beinir sjónum sínum að Kristínu eftir 7. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu, en hún lagði upp fyrra mark ÍBV og skoraði það seinna í 2:0-sigri liðsins á Breiðabliki í fyrradag.

Daginn eftir sigurinn frækna varð Kristín Erna að kveðja móðurömmu sína, sem glímt hafði við veikindi og lést í gærmorgun. Framherjanum þótti eins og fyrr segir vænt um að geta tileinkað henni mark og sigur.

„Hún var orðin níræð og hafði kannski ekki heilsu til þess að mæta á völlinn lengur, en hún fylgdist alltaf mjög vel með mér,“ sagði Kristín.

Þessi 25 ára gamla Eyjamær hefur leikið með og búið til mörk fyrir meistaraflokkslið ÍBV frá árinu 2008, skorað alls 88 mörk í 132 leikjum í deild og bikar og lagt upp urmul marka, en hún lék eitt ár með Fylki síðasta sumar. Sigurinn gegn Breiðabliki var hins vegar langþráður, en hann vannst við erfiðar aðstæður vegna mikillar rigningar í aðdraganda leiksins:

„Ég hef aldrei unnið Breiðablik hérna á heimavelli svo það var mjög sætt að ná því loksins. Ég held að ég hafi aldrei spilað á svona blautum velli áður. En við erum ekkert vanari því en þær [Blikakonur] að spila við svona aðstæður. Völlurinn var ekki svona daginn fyrir leik svo að þetta var nýtt fyrir okkur líka,“ sagði Kristín Erna.

Sjá allt viðtalið við Kristínu Ernu í íþróttablaði Morgugnblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert