Meistararnir fóru illa með toppliðið

Íslandsmeistarar FH-inga unnu langþráðan sigur í Pepsi-deildinni í knattspyrnu þegar þeir lögðu topplið Stjörnunnar á heimavelli sínum í Kaplakrika í kvöld, 3:0.

FH hafði fyrir leikinn í kvöld spilað fjóra leiki í röð án sigurs í deildinni og með sigrinum hoppuðu meistararnir upp um fjögur sæti og eru í fjórða sæti deildarinnar með 9 stig  en þrátt fyrir tapið eru Stjörnumenn áfram í toppsæti deildarinnar. Þeir eru með 13 stig eins og Valsmenn en markatala Garðabæjarliðsins er betri.

Þetta var fyrsta tap Stjörnunnar í deildinni á tímabilinu og það mátti glöggt merkja að fjarvera Daníels Laxdal, Eyjólfs Héðinssonar, Guðjóns Baldvinssonar og Haraldar Péturssonar markverðar veikti liðið til mikilla muna enda hryggjastykkið í liði þeirra bláklæddu.

FH-ingar höfðu tögl og hagldir í fyrri hálfleik og Steven Lennon skoraði eina mark hálfleiksins þegar hann skoraði með lúmsku skoti úr aukaspyrnu á 23. mínútu leiksins. FH-ingar voru mjög kraftmiklir og ákafir í leik sínum í fyrri hálfleik og áttu Stjörnumenn í vök að verjast.

Garðbæingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og pressuðu FH-ingana stíft þó án þess að skapa sér nein færi að viti. Á 63. mínútu bætti Kristján Flóki Finnbogason við öðru marki þegar hann skallaði boltann í autt markið efir misheppnað úthlaup Sveins Sigurðar markvarðar Stjörnunnar og eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn lenti. Þórarinn Ingi, nýkominn inná sem varamaður, rak  síðasta naglann í líkkistu Stjörnunnar þegar hann skoraði þriðja markið á 81. mínútu með sinni fyrstu snertingu eftir flotta sendingu frá Atla Guðnasyni.

FH-ingar léku án efa sinn heilsteyptasta leik á tímabilinu en liðsheild meistaranna var ákaflega sterk og hvergi veikan hlekk að finna. Stjörnumenn hittu einfaldlega fyrir ofjarla sína að þessu sinni. Þeir urðu undir í baráttunni og náðu aldrei neinum tökum á leik sínum. Fjarvera lykilmanna var of stór biti og fyrsta tap Stjörnumanna á tímabilinu staðreynd.

FH 3:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Alex Þór Hauksson (Stjarnan) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert