Spurðu mig um Kristján Flóka

Aron Sigurðarson fagnar marki sínu gegn Kínverjum í janúar.
Aron Sigurðarson fagnar marki sínu gegn Kínverjum í janúar. AFP

Aron Sigurðarson leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Tromsö er í landsliðshópnum sem mætir Króötum á Laugardalsvellinum á sunnudagskvöldið en sóknarmaðurinn skæði úr Grafarvogi hefur spilað vel með liði sínu á tímabilinu.

Aron hefur verið í byrjunarliði Tromsö í öllum tólf leikjum liðsins í deildinni og hefur í þeim skorað tvö mörk.

„Það er að sjálfsögðu mjög gaman að vera hluti af landsliðshópnum og mikill heiður að vera í þessum sterka leikmannahóp. Ég verð verð klár ef kallið kemur. Ég hef spilað alla leikina með Tromsö á tímabilinu og mér hefur gengið vel þó svo að liðinu hafi ekki vegnað sem best,“ sagði Aron við mbl.is en Tromsö er í 14.sæti af 16 liðum í deildinni eftir tólf umferðir.

Fregnir bárust af því í vikunni að aðstoðarþjálfari Tromsö hafi verið á Íslandi í leikmannaleit en hann fylgdist með fjórum leikjum í Pepsi-deildinni.

„Það gæti verið að það sé að koma annar Íslendingur í liðið. Aðstoðarþjálfarinn sem kom til Íslands er búinn að spyrja mig mikið um leikmenn,“ sagði Aron. Eins og mbl.is greindi frá í vikunni er Kristján Flóki Finnbogason framherji FH einn þeirra leikmanna sem Tromsö hefur áhuga á að fá til liðs við sig en Kristján hefur skorað 6 mörk í deild og bikar í sex leikjum með Íslandsmeisturunum á tímabilinu.

„Þeir spurðu mig meðal annars um Kristján Flóka og fleiri sem ég vil ekki nefna á þessu stigi. Ég held að íslenski markaðurinn sé fínn markaður fyrir norsku liðin. Það myndi ekki skemma fyrir að fá einhverja landa sína til Tromsö,“ sagði hinn 24 ára gamli Aron Sigurðarson sem hefur skorað 2 mörk í fimm leikjum með A-landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert