„Nýi formaðurinn vinnur bara alla leiki“

Geir Þorsteinsson.
Geir Þorsteinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Geir Þorsteinsson fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands hefur staðið í ströngu síðustu vikurnar en hann var eftirlitsmaður FIFA í úrslitakeppni U20 ára landsliða í knattspyrnu sem lauk í S-Kóreu í gær með því að Englendingar hömpuðu heimsmeistaratitlinum.

Geir var eftirlitsmaður í 20 af 52 leikjum í keppninni og þar af í leikjunum um þriðja sætið og í úrslitaleiknum en leikirnir fóru fram í Suwon.

„Nýi formaður KSÍ vinnur bara alla leiki svo þetta voru bara ansi góð skipti,“ sagði Geir og hló þegar mbl.is spjallaði við hann í morgun en Geir lét af formennsku hjá KSÍ í byrjun ársins eftir 10 ára starf og Guðni Bergsson tók við formennskunni. Geir var eðlilega í skýjunum eftir magnaðan 1:0 sigur Íslendinga gegn Króötum á Laugardalsvellinum í gærkvöld. Hann gat ekki fylgst með leiknum í sjónvarpi en fylgdist spenntur með leiknum í gegnum textalýsingu.

„Ég leitaði út um allt á sjónvarpsstöðvum að leiknum en fann hann ekki svo það var ekki annað að gera en að fylgjast með textalýsingunni um miðja nótt. Eftir þennan flotta sigur erum við með í baráttunni um farseðilinn til Rússlands og ég hef fulla trú á okkar frábæra liði. Þessi sigur vekur mikla athygli og ég tók á móti mörgum hamingjuóskum. Það er ennþá verið að ræða við mig um Evrópumótið í fyrra og sumir vilja meina að íslenska liðið hafi bjargað keppninni,“ sagði Geir Þorsteinsson

„Þetta er búinn að vera ansi strembinn en um leið skemmtilegur mánuður hjá mér. Ég setti persónulegt met með því að vera eftirlitsmaður á 20 af 52 leikjum í keppninni. Þetta var virkilega gaman og þessi keppni er alveg mögnuð með fullt af skemmtilegum leikjum. Þessir strákar eru ekki alveg komnir inn á stóra sviðið en þarna sá maður framtíðarstjörnur og úrslitaleikurinn á milli Englands og Venesúela var frábær leikur,“ sagði Geir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert