Hélt að um símahrekk væri að ræða

Frá leik Manchester City og West Ham á síðustu leiktíð.
Frá leik Manchester City og West Ham á síðustu leiktíð. AFP

Skipuleggjendur vináttuleiks ensku úrvalsdeildarliðanna Manchester City og West Ham sem eigast við á Laugardalsvellinum þann 4. ágúst í sumar gera sér vonir um að slá áhorfendametið á vellinum.

Áhofendametið er 20.204 sem fylgust með viðureign Íslands og Ítalíu sem áttust við í vináttuleik árið 2004 þar sem Íslendingar unnu góðan sigur, 2:0.

Markmiðið að koma út á núlli

Spurð hvort leikurinn muni skila einhverjum peningum í kassa Knattspyrnusambands Íslands sagði Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ;

„Nei ekki þannig lagað. Við hugsum þetta eingöngu út frá því að öðlast reynslu og styrkja íslenskan fótbolta. Miðað við hugmyndina sem þeir sem að leiknum standa hafa kynnt fyrir okkur þá hefur orðið fjölgun áhorfenda í deildunum í löndunum sem svona leikir hafa verið spilaðir í þannig að við erum að vonast til þetta skili auknum áhorfendafjölda í deildarkeppnina hér heima og að fleiri erlendir gestir mæti á völlinn. Við lítum á þetta sem tækifæri fyrir KSÍ í því að æfa sig í stærri leikjum. Að sjálfsögðu er markmiðið að koma út á núlli. Við ætlum ekki að borga með leiknum. Ef við náum að halda skynsamlega á spöðunum þá skilar leikurinn einhverjum krónum í kassann en það er ekki markmiðið,“ sagði Klara Bjartmarz við mbl.is.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Golli

Þegar þessi hugmynd kom upp á borðið tókuð þið strax vel í hana?

„Nei ég viðurkenni það alveg að það er langt síðan þessi hugmynd kom fyrst upp á borðið til mín. Fyrst hringdi ágætur maður sem heitir Lars Lagerbäck og spurði mig hvernig mér litist á þetta. Ég sagði bara vel og sagði við hann að myndum heyrast síðar. Þá var ekki vitað hvaða lið myndu spila. Síðan hafði eigandi fyrirtækisins Super Match í mig. Ég hélt í fyrstu að um símahrekk væri að ræða. Það liðu nokkrir mánuðir en á endanum kom þessi maður hingað og þá sáum við að það væri einhver alvara á bak við þetta. Þetta er stórt verkefni og við munum bæta inn einum afleysingarmanni sem kemur inn í starf tengdum þessum leik en það er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun leiksins.“

Verður áskorun fyrir okkur

Sjáið þið fyrir ykkur að það mæti 15-20 þúsund manns eins og skipuleggjendur leiksins vonast eftir að mæti?

„Ég veit það ekki. Þetta var ein af þeim efasemdum sem ég hafði í upphafi en þeir segjast vera mjög bjartsýnir og hafa sýnt fram á mörg dæmi hvernig þeim hefur tekist að selja fólki miða á leikinn. Það verður spennandi að sjá hversu margir mæta. Þetta verður áskorun fyrir okkur en við verðum líka að líta til þess að leikurinn fer fram á föstudegi um verslunarmannahelgi. Hvað þýðir það í mætingu? Þess vegna er leikurinn þetta snemma dags. Þeir hafa hugmyndir uppi um að bæta við bráðabirgðastúkum við norðurenda vallarins og þeir hafa sýnt okkur myndband hvernig það er gert. Þetta á fylla alla byggingarstaðla og Evrópustaðla,“ sagði Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert