EM-hópur Íslands tilkynntur í dag

Freyr Alexandersson tilkynnir EM-hópinn í dag.
Freyr Alexandersson tilkynnir EM-hópinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, tilkynnir í dag landsliðshóp Íslands fyrir lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Hollandi í næsta mánuði.

Freyr tilkynnir 23 leikmenn, en þrátt fyrir það þarf hann ekki að senda leikmannalistann inn fyrr en tíu dögum fyrir EM, sem hefst 16. júlí. Meiddum leikmönnum má svo skipta út fram að leiknum við Frakka 18. júlí.

Mesta eftirvæntingin ríkir væntanlega um Hörpu Þorsteinsdóttur, framherja Stjörnunnar, sem er að koma til baka eftir barnsburð og byrjaði sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni þetta tímabilið nú á þriðjudagskvöld.

Þá eru Sandra María Jessen, Þór/KA, og Hólmfríður Magnúsdóttir, KR, búnar að stimpla sig inn í deildinni eftir erfið meiðsli á vormánuðum, en hvorug var valin í hópinn fyrir vináttuleikina tvo gegn Írlandi og Brasilíu fyrr í þessum mánuði.

Mbl.is verður á staðnum og gerir fundinum, sem hefst klukkan 13.15, góð skil og sýnir frá í beinni útsendingu á vefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert