„Hann er bara svindlkarl“

Kristófer Sigurgeirsson þjálfari Leiknis fylgist með sínum mönnum í Kaplakrika …
Kristófer Sigurgeirsson þjálfari Leiknis fylgist með sínum mönnum í Kaplakrika í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknismanna, og lærisveinar hans voru einni mínútu frá því að tryggja sér framlengingu gegn Íslandsmeisturum FH í dag þegar liðin áttust við í undanúrslitum Borgunarbikarkeppninnar í knattspyrnu í Kaplakrika.

Á 2. mínútu í uppbótartíma skoraði Skotinn Steven Lennon eina mark leiksins og bikarævintýri Leiknismanna er þar með lokið.

„Ég sá ekkert annað í stöðunni en að þetta væri að fara í framlengingu, sem FH-ingarnir vildu alls ekki. Við vorum búnir að fara í tvo framlengda leiki í bikarnum í sumar gegn Grindavík og ÍA þar sem við höfðum betur og ég var farinn að gæla við að það sama gæti gerst í þessum leik. En það þurfti einn Steven Lennon til að eyðileggja það. Á sínum degi er Lennon bara svindlkarl.

Það var vel gert hjá okkur að halda honum og öllu FH-liðinu í skefjum í 90 mínútur. Skipulagið gekk hrikalega vel upp hjá okkur og strákarnir mínir geta svo sannarlega verið stoltir af frammistöðu sinni.

Nú er þessu skemmtilega ævintýri lokið hjá okkur í bikarnum og nú getum við snúið okkur alfarið að deildinni, þar sem við höfum verk að vinna. Við tökum margt mjög jákvætt með okkur út úr þessum leik og við skráðum nýja kafla í sögu félagsins með framgangi okkar í bikarnum í ár,“ sagði Kristófer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert