Markaleysið fyrsta korterið ótrúlegt

Óskar tæklar Kwame Quee í kvöld.
Óskar tæklar Kwame Quee í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Kantmaðurinn knái, Óskar Örn Hauksson, lék vel þegar KR sigraði Víking Ólafsvík 4:2 í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Óskar skoraði síðasta mark KR en liðið er í 5. sæti deildarinar með 20 stig.

„Ég er ánægður með sigurinn en það er skrýtið að missa leik sem þú ert alveg með, að missa hann úr 2:0 í 2:2,“ sagði Óskar við mbl.is að leik loknum. KR-ingar komust í 2:0 og voru með mikla yfirburði. Gestirnir jöfnuðu metin en KR-ingar skoruðu tvö mörk á síðustu tíu mínútunum og tryggðu sér sigurinn.

„Það er sterkt að koma til baka og klára þetta. Við erum hrikalega ánægðir með það,“ sagði Óskar sem var afar ánægður með spilamennsku KR í fyrri hálfleik. „Það var ótrúlegt að við skyldum ekki skora nokkur mörk á fyrsta korterinu en við héldum áfram og náðum inn mörkum.“

Hann sagði að það væri alltaf hætta í stöðunni 2:0, eins og sannaðist í kvöld. „Við fengum þetta í bakið á tímabili.“

KR hefur unnið þrjá leiki í röð eftir dapurt gengi í leikjunum á undan því. „Við vorum ekkert að spila illa í byrjun móts, áttum fína leiki en úrslitin voru ekki að detta. Þá minnkaði sjálfstraustið en að kemur að því að við vinnum leiki, enda með gott lið. Með sigrum kemur sjálfstraust og það er að sýna sig,“ sagði Óskar sem er ánægður með danska sóknarmanninn André Bjerregaard sem gekk til liðs við KR fyrri í mánuðinum og skoraði þriðja mark Vesturbæinga í kvöld.

„Þetta er gríðarlega góður leikmaður. Við eigum að njóta þess að hafa hann hérna meðan hann er því hann er gríðarlega öflugur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert