FH úr leik í Meistaradeildinni

FH féll úr keppni í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu á Kaplakrikavelli í kvöld þegar liðið tapaði 0:1 fyrir Maribor frá Slóveníu. Maribor vann fyrri leikinn í Slóveníu, 1:0 og samtals 2:0. FH fær hins vegar keppnisrétt í forkeppni Evrópudeildarinnar og Evrópuleikjum liðsins er því ekki lokið þetta sumarið. 

Leikurinn í kvöld var með rólegra móti en spennan var til staðar því lengst af var staðan 0:0. Bæði lið voru frekar varkár í fyrri hálfleik og ekkert dauðafæri leit dagsins ljós. Maribor hélt boltanum nokkuð vel en FH-ingar reyndu að sækja þegar færi gafst. 

Eina mark leiksins lét bíða verulega eftir sér og kom á 90. mínútu þegar FH-ingar voru orðnir fjölmennir í framlínunni. Doumbia var kominn fram og Bergsveinn hafði verið tekinn út af. Þegar FH-ingar voru orðnir fáliðaðir í vörninni slapp hættulegasti leikmaður Maribor, Marcos Tavares, aleinn inn fyrir vörnina. Þurfti reyndar að taka sprett frá miðlínu en var yfirvegaður í færinu og renndi boltanum framhjá Gunnari Nielsen í marki FH. Tavares gerði þar með út um rimmuna. 

Tæpum tíu mínútum fyrr hafði Maribor fengið besta færi leiksins og skutu í stöng. Fengu einnig frákastið og þá bjargaði varnarmaður FH á síðustu stundu. 

Eins og fyrr sagði er þátttöku FH í Evrópukeppnum ekki lokið í sumar. Liðið fær keppnisrétt um að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og verður leikið síðar í ágúst. 

FH 0:1 Maribor opna loka
90. mín. Einn leikmaður Maribor liggur á vellinum. Er borinn út af.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert