Loksins vann Grindavík

Andri Rúnar Bjarnason með boltann í leiknum í kvöld.
Andri Rúnar Bjarnason með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir

Það var blásið til veislu er Grindavík tók á móti ÍA í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld en leiknum lauk með 3:2 sigri Grindavíkur eftir mikla dramatík.

Leikurinn fór rólega af stað en bæði liði hafa ekki átt góðu gengi að fagna undanfarið. Grindvíkingar höfðu tapa fjórum í röð og Skaginn ekki unnið í síðustu sex fyrir leik kvöldsins og sátu á botni deildarinnar.

Heimamenn voru töluvert sterkari fyrir hlé og jókst pressa þeirra eftir því sem leið á hálfleikinn. Síðustu fimm mínútur hans voru svo einstefna í átt að marki ÍA og í raun ótrúlegt að liðin hafi gengið til búningsherbergja markalaus í hálfleik. Alexander Veigar Þórarinsson fékk þrefalt dauðafæri á 40. mínútu þegar hann lét Árna Snæ Ólafsson, markmann ÍA, verja frá sér í tvígang af stuttu færi áður en hann setti boltann framhjá í þriðju tilraun. René Joensen fékk svo dauðafæri á 44. mínútu þegar boltinn barst til hans fyrir framan opið mark en hann setti hann framhjá af stuttu færi.

Í seinni hálfleik var svo blásið til veislu. Eftir að hafa legið í vörn allan fyrri hálfleikinn voru það Skagamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 51. mínútu með góðu skoti inn í vítateig eftir vandræðagang í vörn heimamanna.

Á 64. mínútu fékk Grindavík vítaspyrnu eftir að brotið var á Alexander Veigari og á punktinn fór Andri Rúnar Bjarnason og skoraði örugglega. Sú gleði entist þó stutt fyrir heimamenn því fjórum mínútum síðar voru Skagamenn aftur komnir yfir. Garðar Bergmann Gunnlaugsson skoraði þá glæsilegt aukaspyrnumark þegar hann lyfti boltann yfir varnarmannaveginn og upp í bláhornið.

Grindvíkingar gáfust þó ekki upp og á 80. mínútu fiskaði varamaðurinn Juan Manuel Ortiz aðra vítaspyrnu og aftur steig Andri Rúnar á punktinn og aftur skoraði hann örugglega, stöngin inn, hans 14 mark í sumar.

Á 84. mínútu var endurkoman svo fullkomnuð en þar voru á ferðinni varamennirnir. Simon Smidt átti frábæran sprett upp vinstri kantinn og lagði hann svo fyrir markið þar sem Ortiz mætti og flikkaði honum glæsilega yfir Árna Snæ í markinu. Ortiz fagnaði markinu með því að rífa sig úr treyjunni sem átti eftir að reynast honum dýrkeypt því hann fékk gult spjald þar og svo sitt síðara gula og þar með rautt undir lok leiksins þegar hann braut á Árna Snæ Ólafssyni.

Grindvíkingar unnu langþráðan sigur og skella sér upp í fjórða sætið með 24 stig. Skagamenn eru áfram neðstir með 10 stig eftir 15 umferðir.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Grindavík 3:2 ÍA opna loka
90. mín. Aukaspyrna á stórhættulegum stað, þeim sama og Garðar skoraði frá áðan! Skaginn á einn séns!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert