Stjarnan skoraði níu í fyrsta Evrópuleik

Leikmenn Íslandsmeistaraliðs Stjörnunnar fagna marki á Íslandsmótinu í sumar.
Leikmenn Íslandsmeistaraliðs Stjörnunnar fagna marki á Íslandsmótinu í sumar. mbl.is/Golli

Íslandsmeistarar Stjörnunnar unnu afskaplega öruggan sigur á færeyska meistaraliðinu KÍ Klaksvík í fyrsta leik sínum í riðli forkeppninnar fyrir 32 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna. Leikið er í Króatíu og vann Stjarnan 9:0-sigur.

Stjarnan hafði gríðarlega yfirburði í leiknum og í fyrri hálfleik hreinlega rigndi inn mörkunum. Agla María Albertsdóttir gaf tóninn á 8. mínútu og á síðustu 15 mínútum fyrri hálfleiks bætti Stjarnan við heilum sex mörkum.

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði tvívegis og þær Katrín Ásbjörnsdóttir, Donna-Key Henry og Bryndís Björnsdóttir skoruðu eitt mark hver, auk þess sem færeyska liðið skoraði sjálfsmark. Staðan 7:0 fyrir Stjörnunni í hálfleik.

Stjarnan slakaði örlítið á eftir hlé þrátt fyrir yfirburði sína og lét tvö mörk duga. Donna-Key Henry skoraði sitt annað mark á 69. mínútu og í uppbótartíma bætti Lára Kristín Pedersen við marki. Lokatölur 9:0 fyrir Stjörnunni.

Stjarnan mætir Istatov frá Makedóníu í öðrum leik sínum á föstudag og lokaleikurinn er svo gegn heimaliðinu ZNK Osijek hinn 28. ágúst. Þessi lið mætast innbyrðis síðar í dag. Aðeins efsta lið riðilsins kemst áfram í 32 liða úrslitin.

Fylgst var með gangi mála hjá Stjörnunni í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Stjarnan 9:0 KÍ Klaksvík opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert