Davíð með stóran áfanga

Davíð Þór Viðarsson í baráttu við fjóra Eyjamenn í leiknum …
Davíð Þór Viðarsson í baráttu við fjóra Eyjamenn í leiknum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, náði stórum áfanga í gær þegar Hafnarfjarðarliðið sigraði Eyjamenn, 2:1, í 20. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

Þetta var 200. leikur Davíðs í efstu deild hér á landi en hann hefur leikið þá alla fyrir FH og er fjórði leikmaður félagsins frá upphafi sem nær þeim fjölda í búningi FH. Á undan honum eru Atli Viðar Björnsson með 251 leik, Atli Guðnason með 234 leiki og Freyr Bjarnason með 201 leik.

Davíð, sem er 33 ára gamall, lék fyrr á árinu sinn 300. deildarleik samanlagt á ferlinum og þeir eru nú samtals 313 talsins. Hann spilaði fyrst 16 ára með FH í B-deildinni árið 2000 og lék jafnframt um skeið sem atvinnumaður, fyrst með Lillestrøm í Noregi og Lokeren í Belgíu en síðar með Öster í Svíþjóð og Vejle-Kolding í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert