Andri skoraði ekki og KA upp fyrir Grindavík

Hallgrímur Mar kemur KA í 2:0.
Hallgrímur Mar kemur KA í 2:0. mbl.is/Skapti Hallgrímsson.

KA lagði Grindavík að velli, 2:1, á Akureyrarvelli í dag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Fylgst var með gangi mála í leiknum hér á mbl.is.

KA fór með sigrinum í 29 stig í 5. sætið á meðan Grindvíkingar hafa áfram 28 stig í 6. sætinu, en bæði lið nýliðar í ár og búin að tryggja áframhaldandi veru í sína í efstu deild fyrir leikinn.

KA-menn voru 2:0 yfir í hálfleik en mörkin komu bæði undir lok fyrri hálfleiksins. Elfar Árni Aðalsteinsson brenndi af víti í upphafi leiks en síðan var mikið jafnræði og lítið um færi fram að mörkunum tveimur

Fyrra markið kom nánast upp úr engi en Emil Lyng þrumaði þá knettinum í bláhornið eftir dúllerí fyrir framan teig Grindvíkinga. Hallgrímur Mar bætti svo við marki þremur mínútum síðar eftir að Emil hafði sent hann í gegnum vörnina.

Grindvíkingar komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og minnkuðu fljótt muninn með skrautlegu marki af löngu færi sem Simon Smidt skoraði. Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir eitt og eitt hálffæri og KA-menn hrósuðu því 2:1 sigri

Markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason komst ekki á blað í leiknum en hann kom sér í nokkur færi. Bolvíkingurinn spræki hefur nú einn leik til að reyna að bæta markametið í efstu deild, en hann hefur skorað 18 mörk í deildinni.

Í lokaumferðinni fara KA-menn til Eyja en Grindavík fær Fjölni í heimsókn.

Kristijan Jajalo ver vítið frá Elfari Árna Aðalsteinssyni.
Kristijan Jajalo ver vítið frá Elfari Árna Aðalsteinssyni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
KA 2:1 Grindavík opna loka
90. mín. Srdjan Rajkovic (KA) fær gult spjald +2 Fyrir að tefja.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert