Hélt ég myndi ekki lifa að sjá Ísland fara á HM

Ellert B.Schram.
Ellert B.Schram. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ellert B. Schram, fyrrverandi formaður KSÍ og forseti ÍSÍ til margra ára, brosti út að eyrum þegar undirritaður rakst á hann skömmu eftir að flautað hafði verið til leiksloka í viðureign Íslands og Kosóvó á Laugardalsvellinum í kvöld þar sem Íslendingar tryggðu sér sæti í lokakeppni HM í fyrsta sinn í sögunni.

„Þetta er toppurinn í sögu íslenskrar knattspyrnu og er eitt af betri íþróttafrekum í sögu okkar,“ sagði Ellert við mbl.is eftir leikinn.

„Að vinna þennan mjög öfluga riðil og komast þar með beint inn á HM er hreint út sagt stórkostlegur árangur og ég eins og öll íslenska þjóðin get ekki verið stoltari. Það er miklu meira afrek að komast inn á HM heldur en EM. Á HM ertu á stærsta sviðinu og það verður spennandi að fylgjast með framgangi liðsins í Rússlandi næsta sumar.

Ég var ekkert smeykur fyrir þennan leik. Hjartslátturinn var alveg eðlilegur og þegar fyrsta markið kom þá vissi ég að við myndum vinna þennan leik. Strákarnir spiluðu leikinn af fagmennsku. Nú fögnum við þessum stórkostlega áfanga. Við eigum fullt erindi til Rússlands.

Mið óraði ekki fyrir því að ég ætti eftir að lifa að sjá íslenska landsliðið komast á HM,“ sagði Ellert B.Schram, sem var formaður KSÍ frá 1973 til 1989. Þá lék hann 23 landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1960 til 1970 og skoraði í þeim 6 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert