Ísland verður í A-deild

Ísland er komið í hóp allra fremstu landsliða heims.
Ísland er komið í hóp allra fremstu landsliða heims. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun leika í A-deild, efstu deild, hinnar nýju Þjóðadeildar UEFA haustið 2018. Ísland verður þar með í hópi 12 bestu landsliða Evrópu en sú er raunin eftir stórkostlegan árangur liðsins undanfarin ár þar sem það komst í fyrsta sinn í umspil fyrir HM 2014, í 8-liða úrslit á EM 2016, og beint inn á HM 2018 með því að vinna sinn riðil.

Í Þjóðadeildinni verður keppt í fjórum deildum og verður raðað í þær samkvæmt sérstökum styrkleikalista UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, sem birtist í dag. Listinn sá er ólíkur styrkleikalista FIFA en lið fá stig eftir árangri í þremur síðustu undankeppnum stórmóta auk lokakeppna HM 2014 og EM 2016. Undan- og lokakeppni HM 2014 hefur 20% vægi, undan- og lokakeppni EM 2016 40% vægi og undankeppni HM 2018 40% vægi.

Meðfylgjandi mynd sýnir hvaða þjóðir eru með Íslandi í A-deildinni, en áætlað er að Ísland verði í 10. sæti UEFA-listans sem gefinn verður út í dag. Hvað tekur svo við? Hvernig virkar Þjóðadeildin og hvernig tengist hún lokakeppni EM 2020? Því er hægt að svara í löngu máli en stutta svarið er það að Þjóðadeildin er ný keppni sem ætlað er að koma í stað þýðingarlítilla vináttulandsleikja, keppni þar sem sigurvegari verður krýndur og þar sem fjögur sæti á EM 2020 verða í boði. Lengra svarið má lesa hér að neðan.

Íslendingar geta nú beint sjónum sínum að A-deild Þjóðadeildarinnar. Þar verða strákarnir okkar í fyrstu keppninni af þessu tagi, sem leikin verður í september, október og nóvember á næsta ári. Tólf þjóðir leika svo í B-deild, fimmtán í C-deild og 16 lægst skrifuðu þjóðir Evrópu leika í D-deildinni.

Í A-deild verður liðunum 12 skipt í fjóra riðla. Ísland mun því dragast í riðil með tveimur öðrum þjóðum, en dregið verður í Lausanne í Sviss þann 24. janúar næstkomandi. Ekki hefur komið fram hvort liðum verður styrkleikaraðað fyrir dráttinn.

Neðsta lið hvers riðils í A-deildinni mun falla niður og leika í B-deild haustið 2020. Hin tvö liðin munu halda sæti sínu í A-deildinni. Efsta lið hvers riðils A-deildar mun komast í sérstaka fjögurra liða lokakeppni, sem leikin verður í júní 2019, þar sem Þjóðadeildarmeistarar verða krýndir eftir undanúrslit og úrslitaleik. Leikið verður á heimavelli einnar af þjóðunum fjórum. Íslenska landsliðið er sem sagt eitt tólf landsliða sem eiga möguleika á að verða fyrsti Þjóðadeildarmeistarinn.

Sjáðu greinina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Hér má sjá Þjóðardeildina.
Hér má sjá Þjóðardeildina. Ljósmynd/Morgunblaðið
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert