„Sýndum hversu góðar við erum“

Katrín Ásbjörnsdóttir með boltann í fyrri leiknum gegn Rossijanka.
Katrín Ásbjörnsdóttir með boltann í fyrri leiknum gegn Rossijanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við gerðum þetta bara mjög vel og héldu dampi allan leikinn,“ sagði Katrín Ásbjörnsdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, við mbl.is eftir glæsilegan sigur gegn rússneska liðinu Rossijanka, 4:0, í síðari viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Rússlandi í dag.

Stjarnan vann einvígið, 5:1, og er fyrsta íslenska liðið sem kemst í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Við brenndum okkur svolítið á því í fyrri leiknum að slaka á í seinni hálfleik en nú gáfum við bara í og við tókum leikinn algjörlega yfir. Þetta er líklega einn besti leikur okkar á tímabilinu og við sýndum það í þessum leik hversu góðar við erum. Við hefðum svo sannarlega viljað spila svona í allt sumar en eftir að Íslandsmótinu lauk settum við alla einbeitingu í Evrópukeppnina og við vissum að við gætum gert góða hluti í henni,“ sagði Katrín, sem skoraði tvö af mörkum Stjörnunnar í dag og skoraði samtals fimm mörk í leikjunum tveimur gegn rússneska liðinu.

Lentu í umferðarteppu á leið á leikstaðinn

Dregið verður til 16-liða úrslitanna á mánudaginn en spilað verður í þeim í nóvember.

„Það leggst bara vel í okkur að spila í nóvember og nú bíðum við bara spenntar eftir því að sjá hver mótherjinn verður. Ég á mér svo sem enga óskamótherja en ég veit að einhverjar af stelpunum vilja fara í sólina til Barcelona. Við vitum það núna að við getum ekki mætt rússnesku liði og ég held að flestir í Stjörnuliðinu séu ánægðir með það,“ sagði Katrín en Stjarnan hefur á undanförnum árum mætt rússneskum liðum.

Það gekk ekki þrautalaust fyrir Stjörnuliðið að koma sér á völlinn fyrir leikinn en vegna mikillar umferðarteppu seinkaði för liðsins og úr varð að leiknum var seinkað um hálftíma.

„Við vorum einn klukkutíma og 25 mínútur að keyra 10 kílómetra í rútunni. Umferðin var algjörlega í hnút en það tókst að lokum að koma okkur í lögreglufylgd á völlinn. Það var hálftími í að leikurinn ætti að hefjast þegar við komust á leiðarenda. Við þurftum að gera okkur tilbúnar inni í rútunni en sem betur fer var leiknum seinkað um hálftíma. En þetta var bara ágætt fyrir okkur. Við náðum að „peppa“ okkur vel upp í rútunni og við tókum þetta bara á gleðinni,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert