Heimir með tilboð frá HB

Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu, er með tilboð í höndunum frá færeyska liðinu HB frá Þórshöfn. Þetta staðfesti Heimir í stuttu spjalli við mbl.is nú síðdegis.

Heimir var í Færeyjum um nýliðna helgi þar sem hann ræddi við forráðamenn HB og hann kom heim í gær með tilboð í farteskinu frá Færeyingunum.

„Þeir gerðu mér tilboð sem ætla að gefa mér nokkra daga til að vega og meta áður en ég tek ákvörðun. Mér leist bara vel á það sem HB hafði fram að færa og það ætti að skýrast áður en þessi vika er búin hvert framhaldið verður,“ sagði Heimir í samtali við mbl.is.

Heimir hætti sem þjálfari FH í byrjun mánaðarins en félagið ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans við félagið. Heimir stýrði FH-liðinu frá 2008 og undir hans stjórn varð liðið fimm sinnum Íslandsmeistari, bikarmeistari einu sinni og komst í tvígang í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

HB er sig­ur­sæl­asta lið Fær­eyja og hef­ur orðið fær­eysk­ur meist­ari 22 sinn­um, síðast árið 2013. Liðið varð meist­ari und­ir stjórn Kristjáns Guðmunds­son­ar, sem nú stýr­ir ÍBV, árið 2010. HB hafnaði hins veg­ar í 5. sæti af 10 liðum á síðustu leiktíð í fær­eysku úr­vals­deild­inni, sem lauk fyr­ir viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert