Orri fer ekki til Horsens

Orri Sigurður Ómarsson í leik með Val gegn FH.
Orri Sigurður Ómarsson í leik með Val gegn FH. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orri Sigurður Ómarsson, varnarmaður úr Íslandsmeistaraliði Vals í knattspyrnu, hefur tilkynnt danska félaginu Horsens að hann muni ekki ganga til liðs við það.

Valur og Horsens komust að samkomulagi um félagsskipti Orra fyrir nokkrum vikum og í kjölfarið fór hann til Þýskalands með liðinu og spilaði með því æfingaleik. Í framhaldinu gerðist hinsvegar ekkert.

„Þeir náðu samkomulagi við Val og það var allt komið í sambandi við kaup og kjör, en svo fékk ég bara aldrei neitt til mín. Þetta er bara fáránlegt. Þeir hafa sagt tvisvar að þeir þurfi að finna einhvern pening og jafnvel fylla upp í aðrar stöður líka og eru eiginlega bara búnir að setja okkur á bið. Eins og staðan er núna er ég bara að bíða en ef þetta dregst eitthvað miklu lengur slít ég þessu bara sjálfur," sagði Orri við Morgunblaðið um síðustu helgi.

Ekkert gerðist frekar í liðinni viku og samkvæmt heimildum mbl.is tilkynnti Orri Horsens fyrir helgina að málið væri úr sögunni hvað sig varðaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert