Við snérum blaðinu við í seinni

Sara Björk Gunnarsdóttir með fyrirgjöf í kvöld.
Sara Björk Gunnarsdóttir með fyrirgjöf í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líður vel með að hafa unnið en við erum með í hausnum að það er margt sem þarf að bæta. Að sama skapi eru jákvæðir kaflar sem við þurfum að taka með í næsta leik," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði við mbl.is í kvöld. 

Ísland vann 4:1-sigur á Ungverjalandi í fyrsta leik liðsins í undankeppni Evrópumótsins í fótbolta árið 2021 á Laugardalsvelli í kvöld. Staðan var 1:1 í hálfleik en íslenska liðið lék mun betur í seinni hálfleik. 

„Við snerum blaðinu við í seinni hálfleik. Við vorum gjörsamlega úr karakter í fyrri hálfleik. Við vorum að tapa návígum og pressuðum ekki nægilega vel. Við vorum ólíkar sjálfum okkur í fyrri hálfleik en snerum þessu við í seinni hálfleik," sagði Sara sem var ósátt við jöfnunarmark Ungverja í lok fyrri hálfleiks. 

„Það var skelfilegt að fá þetta mark í andlitið, því við bjuggumst engan veginn við því. Ég fékk það samt á tilfinninguna að við myndum snúa þessu við í seinni hálfleik. Þær sem komu inn komu inn með mikinn kraft og bættu í sóknarleikinn okkar." 

Svava Rós Guðmundsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir komu með mikinn kraft í sóknarleik íslenska liðsins þegar þær komu inn á um miðjan seinni hálfleik. „Bæði Svava og Fanndís komu inn með mikinn kraft og það sýnir breiddina í liðinu. Það er geggjað að skipt inn svona góðum leikmönnum."

Íslenska mætir Slóvakíu á mánudagskvöldið á Laugardalsvelli. Sara segir markmiðið að ná í önnur þrjú stig. „Hann leggst vel í mig. Markmiðið er að fá sex stig úr þessum leikjum og við reynum að taka góðu kaflana úr þessum leik í leikinn á móti Slóvakíu, en það er margt sem þarf að bæta líka," sagði Sara Björk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert