Held að það sé ómögulegt fyrir VAR að dæma þetta mark

Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Ísrael í kvöld.
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Ísrael í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sagðist ekki geta séð að annað mark Ísraels, síðara jöfnunarmark liðsins í 2:2-jafntefli liðanna á Laugardalsvelli í kvöld, hafi örugglega verið mark.

Dor Peretz, miðjumaður Ísraels, skallaði þá að marki, Rúnar Alex Rúnarsson virtist vera að verja á ótrúlegan hátt á marklínunni en eftir að VAR-dómararar skoðuðu atvikið ákváðu þeir um mínútu síðar að dæma mark.

„Línuvörðurinn dæmdi ekki mark, það er VAR sem kemur og segir að þetta hafi verið mark. Ég kann ekki alla reglubókina utan að en samkvæmt því sem mér er sagt þurfa þeir að vera 100 prósent öruggir um að boltinn sé inni og ég veit ekki hvort það sé hægt að vera 100 prósent öruggur nema það sé annað hvort marklínutækni eða myndavél á línunni,“ sagði Arnar Þór á fjölmiðlafundi eftir leik.

Hvorugt er til staðar á Laugardalsvelli. Markið kom um miðjan síðari hálfleikinn, skömmu eftir að Þórir Jóhann Helgason hafði komið Íslandi yfir að nýju.

„Ég spurði hvort ég mætti sjá vinkilinn sem þeir nota til þess að dæma en við megum ekki sjá það. Ég held að þetta sé ómögulegt fyrir VAR að dæma þetta mark. Sá vinkill sem þeir nota er alltaf í myndavélunum sem eru notaðar í sjónvarpsútsendingunni.

Það er ekki einhver aukamyndavél sem þeir eru að nota. Við getum því séð alla þessa vinkla sem þeir eru að nota en við höfum ekki fundið enn þá hlið sem segir að þetta sé 100 prósent mark. Þú verður að vera 100 prósent viss, það er ekki nóg að vera 99 prósent viss,“ bætti hann við.

„Það er ekki nóg að segja að þetta sé líklega mark. Þú mátt ekki snúa dómi dómarans fyrr en VAR er 100 prósent öruggt með það. En við breytum því ekki núna því miður,“ sagði Arnar Þór einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert