Arnar hættur með landsliðið

Arnari Þór Viðarssyni hefur verið vikið frá störfum sem landsliðsþjálfari …
Arnari Þór Viðarssyni hefur verið vikið frá störfum sem landsliðsþjálfari karla í fótbolta. Ljósmynd/Alex Nicodim

Arnar Þór Viðarsson var í dag rekinn sem landsliðsþjálfari karla í fótbolta. KSÍ staðfesti tíðindin í fréttatilkynningu rétt í þessu.

Arnar tók við íslenska liðinu í lok árs 2020 og stýrði því í 31 leik. Af þeim unnust sex, en aðeins þrír mótsleikir, allir gegn Liechtenstein í undankeppnum stórmóta. Síðasti leikur Arnars var einmitt 7:0-útisigurinn á Liechtenstein í undankeppni EM á sunnudaginn var.

Þar á undan tapaði íslenska liðið illa fyrir Bosníu á útivelli, 0:3, þar sem frammistaðan var ekki upp á marga fiska. Arnar stýrði íslenska liðinu í undankeppni HM í Katar, en þar endaði Ísland í fimmta sæti af sex liðum í J-riðli og var langt frá því að komast á sitt þriðja stórmót. 

Þá vann Ísland ekki leik í B-deild Þjóðadeildarinnar, þar sem liðið var í riðli með Ísrael og Albaníu. Gerði íslenska liðið jafntefli í öllum fjórum leikjum sínum. 

Arnar lék á sínum tíma 52 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim tvö mörk. Hann hefur þjálfað Cercle Brugge og Lokeren í Belgíu og var um tíma með U21 árs landslið Íslands. 

Yfirlýsing KSÍ: 

Stjórn KSÍ hefur tekið ákvörðun um að leysa Arnar Þór Viðarsson frá störfum sem þjálfara A landsliðs karla og mun nú hefja leit að eftirmanni hans. Stjórnin metur þetta nauðsynlegt skref með hagsmuni liðsins í huga og möguleikann á að ná þeim árangri sem þarf til að koma liðinu aftur í fremstu röð.

„Þetta er auðvitað erfið ákvörðun en við teljum hana nauðsynlega og rétta með hagsmuni liðsins að leiðarljósi. Arnar hefur gert margt gott hérna hjá KSÍ og á hrós skilið fyrir sitt starf sem var oft unnið í krefjandi aðstæðum.

Nú förum við beint í að finna eftirmann hans til þess að hefja undirbúning fyrir næstu leiki liðsins sem fram fara í sumar,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.

Stjórn KSÍ vill koma á framfæri þökkum til Arnars Þórs fyrir hans störf og óskar honum alls hins besta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert