Åge ósáttur: VAR-dómarinn öskraði í eyrun á honum

Åge Hareide var líflegur á hliðarlínunni í kvöld.
Åge Hareide var líflegur á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta er martröð,“ var það fyrsta sem Åge Hareide, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, sagði við mbl.is eftir 3:1-tap liðsins á útivelli gegn Lúxemborg í undankeppni EM í kvöld. „Stundum líður þér eins og þú sért bjargarlaus í fótbolta,“ bætti hann við.

Lúxemborg komst yfir snemma leiks með marki úr víti, sem georgískur dómari leiksins dæmdi eftir skoðun í VAR.

„Dómarinn var búinn að ákveða að þetta væri ekki víti og ég skil þetta ekki. Dómarinn var nær þessu en allir. Mér fannst þetta ekki víti og dómaranum ekki ekki heldur. VAR-dómararnir voru að öskra í eyrun á dómaranum. Þá var þessi ákvörðun tekin,“ sagði Norðmaðurinn svekktur.

Åge Hareide og Jóhannes Karl Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Åge Hareide og Jóhannes Karl Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta var ömurleg byrjun hjá okkur og það var áfall. Við reyndum að komast aftur inn í leikinn, en gerðum mistök sem kostuðu okkur leikinn. Við megum ekki við svona mistökum í landsleikjum, því okkur verður refsað. Það eyðilagði leikinn okkar í kvöld og sömuleiðis rauða spjaldið,“ sagði hann.

Íslenska liðið minnkaði muninn í 2:1 með marki frá Hákoni Arnari Haraldssyni, eftir að búið var að reka Hörð Björgvin Magnússon af velli með tvö gul spjöld. Lúxemborg svaraði hins vegar með þriðja markinu strax í næstu sókn.

Åge Hareide klórar sér í höfðinu í kvöld.
Åge Hareide klórar sér í höfðinu í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Við reyndum og áttum góðan kafla í seinni hálfleik. Hákon skoraði og við sýndum styrk manni færri. Strax á eftir fengum við mark á okkur. Við getum ekki haldið þessu áfram. Við verðum að verjast betur til að vinna leiki.

„Nú eru allir niðri og það er mitt hlutverk að lyfta mönnum upp fyrir mánudag. Stundum þarftu að ganga í gegnum svona í fótbolta til að verða betri. Við verðum að gleyma þessu núna, spila fyrir heiður Íslands og verða betri.“

„Það er einfalt. Við verðum að hætta að gera mistök. Við verðum að spila einfalt og hætta mistökunum. Hákon var mjög góður og Rúnar gerði vel í markinu. Við verðum að gera meira af því,“ sagði sagði sá norski.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert