Þrenna Alberts og Ísland í úrslitaleikinn

Ísland er komið í úrslitaleikinn um sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu eftir glæsilegan sigur á Ísrael í Búdapest í kvöld, 4:1. Ísland mætir Bosníu eða Úkraínu í úrslitaleiknum á þriðjudagskvöldið.

Eftir ágæta byrjun íslenska liðsins sem hélt boltanum betur fyrstu fimm til sjö mínúturnar náðu Ísraelsmenn yfirhöndinni á vellinum um skeið og gerðu sig líklega. Þeir áttu fyrsta umtalsverða færið á 15. mínútu þegar Miguel Vítor skallaði yfir mark Íslands eftir aukaspyrnu.

Landsliðsfyrirliðinn Sverrir Ingi Ingason hreinsar.
Landsliðsfyrirliðinn Sverrir Ingi Ingason hreinsar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Fyrsta færið á 28. mínútu

Leikurinn jafnaðist fljótlega á ný eftir það en á 25. mínútu skapaðist stórhætta í markteig Íslands og Hákon Rafn Valdimarsson þurfti að slá boltann frá eftir skalla samherja. Rétt á eftir kom hættuleg sending inn fyrir vörn Íslands en Hákon var snöggur út og hirti boltann.

Ísland fékk sín fyrstu færi á 28. mínútu. Arnór Sigurðsson lék að vítateignum og átti fast skot, Omri Glazer varði en Orri Steinn Óskarsson fylgdi á eftir. Hann stýrði boltanum framhjá markinu af markteig.

En strax í kjölfarið braut Daníel Leó Grétarsson á Eran Zahavi í vítateig Íslands. Anthony Taylor benti strax á vítapunktinn. Zahavi skoraði sjálfur af miklu öryggi í vinstra hornið, 1:0 fyrir Ísrael.

Landsliðsþjálfarinn Åge Hareide á hliðarlínunni.
Landsliðsþjálfarinn Åge Hareide á hliðarlínunni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Stórglæsilegt jöfnunarmark Alberts

Ísland sótti meira í kjölfarið og fékk aukaspyrnu stutt utan vítateigs á 39. mínútu, um 25 metra frá marki. Albert Guðmundsson tók spyrnuna og skoraði með stórglæsilegu skoti upp í hægra markhornið, óverjandi fyrir Glazer, 1:1.

Og Ísland lék kné fylgja kviði. Eftir hornspyrnu Alberts á 42. mínútu skallaði Sverrir Ingi Ingason boltann áfram á Arnór Ingva Traustason í miðjum vítateignum og hann þrumaði boltanum í hægra hornið niðri, 2:1 fyrir Ísland.

Albert komst síðan í ágætis færi í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir snögga sókn en lyfti boltanum yfir markið. Staðan var því 2:1 í hálfleik.

Gabi Kanichowsky og Hákon Arnar Haraldsson eigast við.
Gabi Kanichowsky og Hákon Arnar Haraldsson eigast við. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hófu seinni hálfleikinn af krafti

Åge Hareide gerði eina breytingu í hálfleik þegar Jón Dagur Þorsteinsson kom í stað Willums Þórs Willumssonar.

Ísland hóf seinni hálfleik af krafti og á 48. mínútu brunaði Hákon Arnar Haraldsson í átt að vítateignum og átti hörkuskot sem Glazer varði í horn.

Guðlaugur Victor Pálsson átti skalla á mark Ísraela eftir hornspyrnu Alberts en beint á Glazer í markinu.

Anan Khalaili í baráttunni við Arnór Sigurðsson í kvöld.
Anan Khalaili í baráttunni við Arnór Sigurðsson í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Arnór Ingvi fór meiddur af velli

Ísraelsmenn voru nærri því að jafna á 59. mínútu þegar Hákon Rafn varði vel frá Anan Khalaili úr vítateignum.

Arnór Ingvi Traustason þurfti að fara af velli vegna meiðsla á 62. mínútu og Ísak Jóhannesson kom í hans stað á miðjuna. Um leið kom Andri Lucas Guðjohnsen í stað Orra Steins Óskarssonar í fremstu víglínu.

Eftir þunga sókn Íslands skallaði Sverrir Ingi Ingason yfir mark Ísraels eftir fyrirgjöf frá vinstri á 70. mínútu.

Ísraelsmenn fóru beint í sókn og Ramzi Safouri komst í skotfæri á vítateigslínu en skaut yfir íslenska markið.

Guðlaugur Victor Pálsson í upphituninni í kvöld.
Guðlaugur Victor Pálsson í upphituninni í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Skaut framhjá úr vítaspyrnu

Hagur Íslands vænkaðist enn þegar vinstri bakvörðurinn Roy Revivo fékk rauða spjaldið á 73. mínútu fyrir að klippa niður Arnór Sigurðsson sem var á leið í skyndisókn. Anthony Taylor dómari var ekki í nokkrum vafa enda þurfti Arnór talsverða aðhlynningu eftir brotið sem var vægast sagt fólskulegt og þurfti að fara af velli nokkrum mínútum síðar.

En tíu Ísraelsmenn fengu vítaspyrnu með aðstoð myndbandsdómara á 79. mínútu eftir að boltinn fór í hönd varnarmanns úr aukaspyrnu. Zahavi fór aftur á punktinn en skaut framhjá markinu!

Í staðinn komst Ísland í 3:1 á 82. mínútu. Eftir snögga sókn fékk Albert boltann frá Ísak, brunaði í átt að markinu, plataði aftasta varnarmann og lyfti boltanum framhjá markverðinum.

Og sigurinn var innsiglaður á 87. mínútu. Enn hröð sókn Íslands, Jón Dagur Þorsteinsson lék að vítateignum og skaut, Glazer varði en Albert var að sjálfsögðu mættur á markteignum og fullkomnaði þrennuna, 4:1.

Leikmenn Íslands hita upp í Búdapest í kvöld.
Leikmenn Íslands hita upp í Búdapest í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller
Ísrael 1:4 Ísland opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert