„Þá fer þetta illa gegn Úkraínu“

Guðlaugur Victor Pálsson og Ísak Bergmann Jóhannesson fagna gegn Ísrael …
Guðlaugur Victor Pálsson og Ísak Bergmann Jóhannesson fagna gegn Ísrael á fimmtudaginn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Það var hjarta í varnarleiknum en þetta var ekki fullkomið,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu.

Arnar, sem er þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, gerði meðal annars upp landsleik Íslands og Ísraels í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM 2024 þar sem Ísland fagnaði stórsigri, 4:1, í Búdapest á fimmtudaginn, ásamt því að spá í spilin fyrir komandi úrslitaleik gegn Úkraínu í Wroclaw í Póllandi á þriðjudaginn.

Tilfinningaþrunginn sigur

Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi unnið stórsigur, 4:1, var liðið oft á tíðum heppið í leiknum og Ísraelsmenn brenndu meðal annars af vítaspyrnu í síðari hálfleik í stöðunni 2:1.

„Það þarf að slípa þetta betur til,“ sagði Arnar.

„Ég sem þjálfari trúi því ekki að þú getir verið heppinn tvisvar sinnum í röð. Það voru ákveðin atriði í Ísraelsleiknum sem við sluppum með og við munum ekki sleppa með það á móti sterku liði Úkraínu.

Þetta var tilfinningaþrunginn sigur og þá fara menn oft í það að halda að allt hafi verið frábært og æðislegt. Menn gætu freistast til þess að spila nákvæmlega eins á þriðjudaginn en ef við gerum það þá fer þetta illa gegn Úkraínu, treystið mér.  Það voru nokkur atriði sem bögguðu mig sem við komumst upp með,“ sagði Arnar meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert