Þeir geta gert mistök og ef einhver segir eitthvað fær hann spjald

Kyle McLagan, leikmaður Fram í leiknum í kvöld. Hann mætti …
Kyle McLagan, leikmaður Fram í leiknum í kvöld. Hann mætti sínum gömlu félögum. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var að vonum mjög svekktur eftir tap gegn Víkingi, 1:0, á Framvellinum í Úlfarsárdal í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Frammistaðan var bara frábær. Fyrir utan eitt augnablik þar sem þeir skora markið og ég held að það hafi verið eina skotið sem hitti markið hjá Víkingi í dag. Nikolaj Hansen átti einn skalla sem fór langt yfir en að öðru leiti ógnuðu þeir okkur ekki neitt.

Auðvitað voru þeir mikið með boltann en við vörðumst ofboðslega vel og gáfum fá færi á okkur. Þegar við unnum boltann sköpuðum við svo oft mikla hættu.“

Eins og Rúnar segir varðist Fram-liðið virkilega vel allan leikinn og virkaði Víkingsliðið hreinlega í vandræðum sóknarlega á löngum köflum leiksins. Eitthvað sem hefur ekki verið algengt síðustu fjögur til fimm ár.

„Þetta var mjög öflugur varnarleikur að því leiti að þeir skapa ekki neitt og við náum að loka vel á þá. Víkingsliðið er búið að vera frábært undanfarin ár, þeir skapa alltaf færi og skora alltaf mörk. Til að vinna þá þarftu að halda markinu hreinu eða skora allavega einu marki fleira en þeir. Því miður var tekið af okkur mark og hugsanlega áttum við að fá vítaspyrnu en ég er ekki búinn að sjá þetta og ætla ekkert að vera að væla yfir því, við breytum því ekki úr þessu.

Strákarnir lögðu á sig gríðarlega vinnu, voru samviskusamir og unnu ofboðslega mikla vinnu sem ég er ánægður með. Ef menn eru til í að gera þetta í hverjum einasta leik getum við orðið flott lið en núll stig í dag gefur okkur ekkert, fyrir utan eitthvað jákvætt sem við verðum að nýta rétt.“

Rúnar Kristinsson og Gareth Thomas Owen.
Rúnar Kristinsson og Gareth Thomas Owen. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Eins og Rúnar kom inná var mark tekið af Fram í leiknum og þá átti liðið klárlega að fá vítaspyrnu seint í leiknum. Tvö risastór atvik sem, að mati blaðamanns, féllu ranglega með Víkingi. Eftir að vítaspyrnunni var sleppt fékk Rúnar svo gult spjald fyrir mótmæli.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um þessi atvik en mér finnst bara að það megi ekki taka ástríðuna úr fótboltanum. Við getum svo sem sagt það að ef ég sem þjálfari má ekkert segja við fjórða dómarann geta þeir leyft sér að gera hvað sem er og það segir enginn neitt. Ef þetta á að vera þannig er ekkert gaman af þessu lengur. Þá geta þeir gert mistök ofan á mistök, trekk í trekk, og ef einhver segir eitthvað fær hann bara spjald. Það er verið að þagga niður í öllum með þessu.

Ég skil alveg þessar reglur og að það sé verið að breyta þessu. Ég tek alveg undir umræðuna með bekkina, það er allt of mikið af látum í mönnum þar sem eru ekki aðalþjálfarar. Þetta er slæmt á Íslandi og við þurfum að laga þetta, kannski er þetta eina leiðin til þess. Við verðum þá bara að biðja okkar menn um að slaka á, eins og ég reyndar gerði oft í leiknum þegar fjórði dómarinn kom til mín og talaði við mig í rólegheitunum. 

Það er ofboðsleg ástríða í þessu og þegar mönnum finnst á sér brotið, eða þegar dómur fellur ekki með þér sem þér finnst þú eiga að fá, eins og vítaspyrnan í kvöld sem við allir vildum fá, þá stökkva menn upp og heimta vítið, það er bara einhver lenska í öllum heiminum. Þá fæ ég náttúrlega gult spjald fyrir það, að veifa höndunum út. Ég tek það bara á mig, það eru nánast allir þjálfarar í deildinni búnir að fá spjald í fyrstu umferðunum. 

Við eigum auðvitað ekki að láta svona sem þjálfarar og ég tek það algjörlega til mín. Ég held að við megum margir hugsa þannig að við erum fyrirmyndir og við eigum ekki að haga okkur svona. Stundum fer maður aðeins yfirum í pirringi en yfirleitt er það bara vegna þess að maður er svo mikill keppnismaður og maður vill vinna. Þá er maður kannski oft svolítið fljótur upp en þetta er hluti af leiknum sem við megum ekki taka út.“

Jannik Pohl var ekki með Fram í kvöld vegna þursabits. Rúnar segir vera tímaspursmál hvenær hann snýr til baka.

„Við vorum alveg fram á síðustu stundu í morgun að taka ákvörðun. Það var smá bati í gær en hann vaknaði aftur stífur í morgun svo við gátum ekki tekið sénsinn. Við erum bara í baráttu við tímann fyrir næsta leik.“

Fram er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar og tekur Rúnar undir það að árangurinn sé líklega á pari miðað við væntingar fyrir tímabil.

„Já,já, ég myndi alveg segja það. Það býst auðvitað enginn við því að Fram vinni Víking miðað við þann mannskap sem þeir eru með og hvernig þeir hafa staðið sig. Ég var búinn að gæla við það að við myndum ná í eitt stig í kvöld og hjálpa þeim liðum sem eru að berjast við Víking í að gera deildina skemmtilegri en í fyrra.

Ég er auðvitað bara að hugsa um Fram, um mig og mitt félag. Við viljum bara bæta okkur og gera betur en í fyrra, það er ennþá markmiðið okkar. Halda oftar hreinu, fá færri mörk á okkur og spila skemmtilegan bolta þegar við förum fram, eins og við gerðum í dag. Við erum með flotta blöndu af hraða og tæknilega góðum leikmönnum og ég er bara mjög sáttur við hópinn minn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert