Umdeild atvik féllu með Víkingi í Úlfarsárdal

Helgi Guðjónsson með boltann í kvöld.
Helgi Guðjónsson með boltann í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Víkingur vann torsóttan sigur á Fram, 1:0,  í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Framvellinum í Úlfarsárdal í kvöld.

Það var mikill kraftur í heimamönnum í upphafi leiks og sköpuðu þeir hættulegri stöður en gestirnir. Á 11. mínútu barst hornspyrna Freds á fjærstöngina á Alex Frey Elísson sem fékk boltann í lærið og þaðan fór hann í netið, en Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins dæmdi hendi og þar með stóð markið ekki.

Í heildina var fyrri hálfleikurinn afar rólegur. Fátt var um færi, Víkingur var meira með boltann en mjög illa gekk að skapa góðar stöður gegn þéttu Fram-liði. Tryggvi Snær Geirsson fékk boltann í teignum eftir langt innkast undir lok fyrri hálfleiks en náði ekki að taka við honum, en var það líklega besta færi Fram í leiknum fyrir utan markið sem dæmt var af. Tryggvi var aleinn í miðjum vítateignum og hefði átt auðvelt verkefni fyrir höndum ef hann hefði náð að taka við boltanum.

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað líkt og sá fyrri og gerðist lítið sem ekkert fyrsta rúma korterið. Gestirnir komust hins vegar yfir á 64. mínútu en þar var að verki Erlingur Agnarsson. Pablo Punyed gerði þá frábærlega á miðjum vallarhelmingi Fram, sneri af sér varnarmann og setti Erling í gegn hægra megin. Erlingur fór með boltann inn á teiginn og kláraði svo virkilega vel með föstu skoti í fjærhornið.

Á 71. mínútu fengu heimamenn svo dauðafæri til að jafna metin. Már Ægisson átti þá skot að marki eftir hornspyrnu sem fór af varnarmanni Víkings og fyrir fætur Alex Freys Elíssonar, sem stóð einum metra fyrir framan opið mark, en setti boltann fram hjá.

Þegar 80 mínútur voru liðnar voru Framarar svo rændir vítaspyrnu. Guðmundur Magnússon féll þá í teignum eftir að Halldór Smári Sigurðsson fór aftan í hann en Jóhann Ingi dæmdi ekki. Tvö risastór atvik sem Jóhann klikkar á og bæði féllu þau með Víkingi. 

Fram-liðið reyndi hvað það gat til að jafna leikinn það sem eftir lifði leiks en allt kom fyrir ekki, Víkingar náðu að halda út. Liðið er því með sex stig eftir fyrstu tvær umferðirnar og er jafnt Breiðabliki og KR á toppnum. Fram er áfram með þrjú stig eftir tvo leiki.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Fram 0:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Tiago Fernandes (Fram) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert