Markmiðið er að vinna

Berglind Rós Ágústsdóttir í leik með Val á síðasta tímabili.
Berglind Rós Ágústsdóttir í leik með Val á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Berglind Rós Ágústsdóttir ber fyrirliðaband knattspyrnuliðs Vals í fjarveru Elísu Viðarsdóttur sem er í barneignarfríi. Berglind skrifaði undir hjá uppeldisfélagi sínu á miðju síðasta tímabili er hún sneri heim eftir atvinnumennsku með Örebro í Svíþjóð og Huelva á Spáni.

Eins og fjallað er um á síðunni hér til hliðar er Val spáð toppsæti Bestu deildarinnar á komandi leiktíð af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum deildarinnar.

„Þetta er frábær spá. Það er geggjað að vera spáð fyrsta sæti, en við verðum að gera okkar og markmið okkar er að vinna. Við þurfum að sýna það að við eigum skilið að vera í fyrsta sæti. Við vitum af þessari spá, en við megum ekki spá of mikið í hana. Við tökum einn leik í einu og verðum á okkar vegferð,“ sagði Berglind við Morgunblaðið.

Valur tapaði fyrir Víkingi í Meistarakeppni KSÍ á þriðjudagskvöld í vítakeppni eftir 1:1-jafntefli á Hlíðarenda. Berglind viðurkennir að það hafi verið högg að tapa leiknum, en nú fer öll einbeitingin á Bestu deildina.

„Það var högg. Það var bikar undir og þetta var meistari meistaranna. Þetta var fyrsti alvöruleikurinn á tímabilinu og við töpuðum í vítaspyrnukeppni. Þetta var mjög leiðinlegt en okkar einbeiting fer á deildina. Markmið okkar þar er að vinna og við hugsum um það,“ sagði hún.

Valsliðið átti ekki góðan fyrri hálfleik gegn Víkingi og var undir í hálfleik, 0:1. Valur jafnaði snemma í seinni hálfleik en tókst ekki að skora annað mark, þrátt fyrir fjölmörg góð færi.

„Við vorum ekki góðar í fyrri hálfleik og vorum ólíkar sjálfum okkur. Í seinni hálfleik sýndum við hvað við getum, spiluðum vel og bjuggum til færi. Það gekk bara illa að koma helvítis tuðrunni inn,“ sagði Berglind og hló. „Við sköpuðum fullt af færum en þetta var ekki dagurinn okkar,“ bætti hún við.

Viðtalið við Berglindi má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert