Förum inn í skel

Lára Ösp Ásgeirsdóttir sækir að körfu Keflvíkinga í kvöld. Daniela …
Lára Ösp Ásgeirsdóttir sækir að körfu Keflvíkinga í kvöld. Daniela Wallen er til varnar. mbl.is/Skúli

Njarðvík mátti þola sárt tap í tvíframlengdum leik gegn Keflavík í kvöld en þetta var fyrsta viðureign liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmóts kvenna í körfubolta. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum svekktur í leikslok þegar mbl.is tók hann tali:

Ef við förum aðeins yfir leikinn. Hvernig þróast hann í þínum huga?

„Þetta var sárt tap í ljósi þess að í 32 mínútur erum við með góð tök á leiknum og erum að leiða. Við vorum með svör við svæðisvörninni þeirra og höldum takti nokkuð vel Við náum 10 stiga forskoti en svo fellur þetta á smáatriðum hjá okkur. Við erum að gefa skot sem við vorum búin að tal um að gefa ekki. Við gleymum okkur og erum að gera rangar skiptingar.

Síðan fer þetta í framlengingu og þá voru þær bara töffarar og fara að setja stóru skotin á meðan við klikkum og förum inn í skel."

Hvílir bölvun á Njarðvík þegar kemur að leikjum gegn Keflavík í ljósi þess að þetta er sjötta tapið gegn þeim á tímabilinu? Getur Njarðvík ekki unnið Keflavík?

"Jú við vinnum í leik númer tvö."

Þið eruð 10 stigum yfir í fjórða leikhluta og það leit allt út fyrir að Njarðvík ætlaði að landa sigri en það tókst ekki. Ertu með skýringu á því?

„Við hættum að gera það sem við áttum að gera. Ég þarf bara að skoða betur hvort að 7 manna róteringin mín sé ekki nóg eða hvort leikmennirnir hafi verið þreyttir eftir 9 daga frí að vera ekki í alvöru spennu. Við erum að klikka á smáatriðum meira seint í leiknum bæði varnar- og sóknarlega. Þetta er eitthvað sem ég þarf að skoða."

Hvað þarf Njarðvík að gera til að ná fram sigri í Ljónagryfjunni?

„Við þurfum að spila 40 mínútur af okkar leikplani og ekki missa dampinn. Við þurfum að einbeita okkur í 40 mínútur. Ef við gerum það þá veit ég að við vinnum," sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert