„Megum ekki misstíga okkur mikið meira“

Rúnar Páll á hliðarlínunni í kvöld.
Rúnar Páll á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það á ekki af Fylkismönnum að ganga í Bestu deild karla í fótbolta. Arfaslakur fyrri hálfleikur þeirra í dag varð þeim fjötur um fót í 4:2-tapi gegn KA í dag. Staðan í hálfleik var 3:0 fyrir KA. Í seinni hálfleik reyndu Fylkismenn allt til að ná stigi út úr leiknum og minnkuðu muninn í 3:2 þegar kortér lifði af leiknum.

KA barðist í bökkum á lokamínútunum og náði svo að gera út um leikinn í blálokin með marki eftir snarpa sókn.

Lið Fylkis er langneðst í deildinni og hefur aðeins krækt sér í eitt stig í fyrstu sjö leikjunum. Þjálfarinn Rúnar Páll Sigmundsson kom í viðtal eftir leik.

„Seinni hálfleikurinn hjá okkur ver frábær og fyrri hálfleikurinn var ekki frábær“ sagði Rúnar Páll. „Við gáfum þeim þrjú ódýr mörk. Það endurspeglaðist bara þarna í lokin. Fáum á okkur víti. Það er varið og við fylgjum því ekki eftir. Það var ákveðinn sofandaháttur í öllu sem við vorum að gera í fyrri hálfleiknum og lítill kraftur.

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Við snérum því við í seinni hálfleik. Fengum þvílíkan kraft í okkur og mikla orku. Það var ekki nóg. Við fengum tækifæri á að jafna leikinn skömmu áður en KA skorar fjórða markið sitt. Ég kvíði engu ef við náum aftur svona frammistöðu eins og í seinni hálfleiknum.“

Hvað var rætt í hálfleik inni í klefa. Það var eins og allt annað lið væri mætt til leiks í seinni hálfleik.

„Við gerðum bara ákveðnar skiptingar. Við höfðum engu að tapa og fórum bara í hápressu. Við mættum þeim maður á mann og það gekk bara ótrúlega vel. KA-menn réðu ekkert við okkur. Þeir komust varla yfir miðju. Þetta var það jákvæða í þessum leik. Við getum tekið það með okkur í næstu leiki.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Heldur þú að liðið geti spilað svona hápressu heilan leik?

Nú glottir Rúnar Páll við tönn. „Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Við sjáum hvernig við mætum HK-ingum í næsta leik. Þar er verðugt verkefni fyrir okkur. Við megum ekki misstíga okkur mikið meira.

 Ég segi það bara og meina það að við erum með gott fótboltalið. Við erum með góða einstaklinga. Við þurfum nú að fá þetta til að virka sem eina heild og hafa trú á því sem við erum að gera.“

Þið eruð nýbúnir að leggja HK í bikarkeppninni.

„Það er fínt að vera komnir áfram þar en við þurfum að safna stigum í deildinni. Um það snýst þetta blessaða sumar“ sagði þjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert