7. umferð: Aron og Damir með stóra áfanga

Aron Sigurðarson er kominn með 300 deildaleiki á ferlinum.
Aron Sigurðarson er kominn með 300 deildaleiki á ferlinum. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Aron Sigurðarson úr KR og Damir Muminovic úr Breiðabliki náðu stórum áföngum á  knattspyrnuferlinum í sjöundu umferð Bestu deildar karla sem lauk í kvöld og nýtt land bættist á listann yfir erlenda leikmenn sem hafa skorað í efstu deild karla.

Aron lék sinn 300. deildaleik á ferlinum þegar KR-ingar lögðu FH að velli í Kaplakrika, 2:1, og skoraði jafnframt sitt fyrsta mark í deildinni fyrir Vesturbæjarliði. Aron lék 95 leiki fyrir Fjölni á árunum 2010-2015, þar af 40 í úrvalsdeild og 55 í 1. deild. Hann lék síðan 102 deildaleiki í Noregi með Tromsö og Start, 23 leiki í Belgíu með Royale Union og svo 77 leiki í Danmörku með Horsens. Leikurinn gegn FH var síðan þriðji leikur Arons með KR í deildinni.

Deildamörkin hans á ferlinum eru 76, þar af 20 fyrir Fjölni, 6 fyrir Tromsö, 27 fyrir Start, 7 fyrir Royale Union, 15 fyrir Horsens og nú eitt fyrir KR.

Damir Muminovic er kominn með 250 leiki í efstu deild.
Damir Muminovic er kominn með 250 leiki í efstu deild. mbl.is/Óttar Geirsson

Damir lék sinn 250. leik í efstu deild í kvöld þegar Breiðablik sigraði Stjörnuna á Kópavogsvelli, 2:1. Leikir hans í fjórum efstu deildunum eru orðnir 320 talsins.

Damir er 24. leikmaðurinn í sögu efstu deildar sem nær 250 leikjum. Hann lék fyrst 16 leiki fyrir HK, þá 22 fyrir Víking í Ólafsvík og hefur nú spilað 212 leiki fyrir Breiðablik í deildinni en hann er næstleikjahæstur í sögu félagsins á eftir Andra Rafni Yeoman sem hefur spilað 279 leiki.

Silas Songani varð fyrsti knattspyrnumaðurinn frá Simbabve til að skora mark í efstu deild á Íslandi þegar hann jafnaði fyrir Vestra gegn Víkingi í gær. Eini landi hans sem hefur áður spilað í deildinni er Kundai Benyu sem lék með ÍBV árið 2022 en hann lék einmitt áður með Vestra í 1. deild.

Silas Songani fagnar marki sínu fyrir Vestra gegn Víkingi.
Silas Songani fagnar marki sínu fyrir Vestra gegn Víkingi. mbl.is/Eyþór Árnason

Fylkismennirnir Matthias Præst frá Danmörku og Aron Snær Guðbjörnsson skoruðu einnig báðir sitt fyrsta mark í deildinni þegar Árbæingarnir töpuðu 4:2 fyrir KA á Akureyri. Matthias í sínum sjöunda leik og Aron í sínum þriðja leik.

Arnþór Ari Atlason úr HK og Guðmundur Magnússon úr Fram skoruðu báðir í sínum þriðja leik í röð í sjöundu umferðinni. Arnþór bætti markamet sitt fyrir HK en þetta var hans 17. mark fyrir félagið í efstu deild.

Ívar Breki Helgason úr Vestra, Eiður Gauti Sæbjörnsson úr HK og Bjarni Guðjón  Brynjólfsson úr FH léku sinn fyrsta leik í efstu deild í umferðinni.

Úrslit­in í 7. um­ferð:

Vestri - Vík­ing­ur R. 1:4
KA - Fylk­ir 4:2
FH - KR 1:2
Breiðablik - Stjarn­an 2:1
Fram - ÍA 1:1
HK - Val­ur 1:2

Marka­hæst­ir í deild­inni:
7 Vikt­or Jóns­son, ÍA
5 Danij­el Dej­an Djuric, Vík­ingi R.
5 Pat­rick Peder­sen, Val
4 Atli Sig­ur­jóns­son, KR
3 Ari Sig­urpáls­son, Vík­ingi R.
3 Arnþór Ari Atla­son, HK
3 Aron Elís Þránd­ar­son, Vík­ingi R.
3 Atli Þór Jón­as­son, HK
3 Ásgeir Sig­ur­geirs­son, KA
3 Guðmund­ur Magnús­son, Fram
3 Gylfi Þór Sig­urðsson, Val
3 Ja­son Daði Svanþórs­son, Breiðabliki
3 Sig­urður Bjart­ur Halls­son, FH

Næstu leik­ir:
25.5. KR - Vestri
25.5. ÍA - Víkingur R.
25.5. Valur - FH
26.5. Fram - Breiðablik
26.5. Stjarnan - KA
27.5. Fylkir - HK
30.5. Valur - Stjarnan
30.5. Breiðablik - Víkingur R.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert