EM: Liðið bætti sig frá leik til leiks

Sif Atladóttir á fullri ferð í leiknum í dag.
Sif Atladóttir á fullri ferð í leiknum í dag. mbl.is/Golli

„Við spiluðum rosalega góða vörn og ég er ánægður með hvernig það gekk," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari í knattspyrnu eftir tapið, 0:1, gegn heims- og Evrópumeisturum Þýskalands í lokaleiknum á EM í Tampere í dag.

„Allir lögðu sig fram, skipulagið gekk vel og liðsheildin var góð. Við vitum að við fáum alltaf færi, og það gáfust þrjú góð tækifæri til að jafna metin í seinni hálfleiknum. Ég sá boltann í markinu í öll skiptin!" sagði Sigurður Ragnar við mbl.is.

„Mér fannst liðið bæta sig leik frá leik í þessu móti og það sem við breyttum í þessum leik var að við drógum liðið 10-15 metrum aftar en áður og byrjuðum að verjast við miðlínu. Þjóðverjarnir fengu þar með lítið svigrúm og fá færi til að spila í gegnum okkur. Það gafst mjög vel og kannski hefðum við átt að gera það í fyrsta leiknum gegn Frökkum," sagði þjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert