Hælspyrna Welbecks tryggði Englandi sigur

Svíþjóð - England 2:3
(Johnson 49. sm, Mellberg 59. – Carroll 23., Walcott 64., Welbeck 78.) 

Danny Welbeck tryggði Englandi sigur á Svíþjóð, 3:2, þegar liðin mættust í D-riðli Evrópumótsins í fótbolta í kvöld.

Englendingar leiddu í hálfleik, 1:0, með marki Andy Carroll en það skoraði hann með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf Steven Gerrard.

Í seinni hálfleik skoruðu Svíar tvö mörk og komust yfir 2:1. Glen Johnson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir skot Olof Mellberg að marki Englands en enginn getur tekið seinna markið af Mellberg sem hann skoraði með skalla.

Roy Hodgson var ekki lengi að bregðast við seinna marki Svía og setti Theo Walcott inn á. Hann breytti leiknum svo um munaði.

Walcott byrjaði á því að jafna metin á 64. mínútu með skoti fyrir utan teig en Andreas Isaksson hefði átt að verja það skot. Isaksson varði samt tvívegis meistaralega í sænska markinu.

Walcott lagði svo upp sigurmarkið sem Danny Welbeck skoraði með stórkostlegri hornspyrnu en Welbeck snéri baki í markið þegar hann skoraði. Lokatölur, 3:2.

England er með fjögur stig í D-riðlinum eins og Frakkland, Úkraína hefur þrjú stig en Svíar eru án stiga eftir fyrstu tvo leikina og eru úr leik.

Fylgst var með leiknum hér á mbl.is:

90.+5 LEIK LOKIÐ MEÐ SIGRI ENGLANDS, 3:2.

90.+2 Steven Gerrard í algjöru dauðafæri upp við mark Svía eftir skyndisókn England og aftur er Theo Walcott að leggja upp. Markvarslan hjá Isaksson í heimsklassa.

88. Ef Englendingarnir ná að hanga á þessum úrslitum eru þeir í fínum málum með fjögur stig. En Svíar pressa þessa stundina.

83. Walcott kom inn á sem varamaður og er búinn að skora eitt og leggja upp annað. Hann virðist eitthvað hafa meiðst á kálfa en ætlar að harka þetta af sér og klára leikinn. Oxlade-Chamberlain var klár í að koma inn á.

78. MARK! Staðan er 2:3. England er aftur komið yfir í þessum ótrúlega leik. Theo Walcott með frábæran einleik og kemur boltanum fyrir frá hægri þar sem hinn ungi Danny Welbeck skorar stórkostlegt mark með hælnum. Welbeck snér baki í markið. Þvílíkur karakter hjá Englendingum.

75. Martin Olsson með frábæran sprett upp vinstri vænginn og hann rennir boltanum út í teiginn á Kallström sem fær boltann því miður á hægri í fínu færi og skot hans rétt yfir.

73. Það er áfram mikill hraði í leiknum og liðin sækja til skiptis. Það verða fleiri mörk skoruð. Það getur ekki annað verið.

64. MARK! Staðan er 2:2. Isaksson breytist úr hetju í skúrk á einu augabragði. Englendingar fengu horn eftir markvörsluna hans frá Terry. Hornspyrnan er skölluð út fyrir teiginn þar sem Theo Walcott á ekkert sérstakt skot, beint á markið, en Isaksson er farinn í annað hornið og boltinn liggur í netinu. Frábær seinni hálfleikur í gangi.

63. DAUÐAFÆRI! John Terry nær skalla á markteig Svía en Isaksson ver glæsilega af stuttu færi.

63. Það er staðfest. Búið er að skrá fyrra mark Svía sem sjálfsmark á Glen Johnson.

59. MARK! Staðan er 2:1. Svíarnir eru komnir yfir! Sebastian Larsson neglir aukaspyrnu langt utan af velli inn á teiginn þar sem enginn valdar Olof Mellberg og varnarmaðurinn reyndi skorar sitt annað mark í leiknum með skalla. Það voru svona 3-4 Svíar sem hefðu getað skallað þennan bolta í netið. Hræðilegur varnarleikur hjá Englandi.

55. Líklega verður þetta mark Svía fært til bókar sem sjálfsmark Glen Johnson. Hart var búinn að verja skot Mellberg en Johnson kom á fullri ferð og fékk boltann í sig.

49. MARK! Staðan er 1:1. Svíar eru búnir að jafna. Zlatan Ibrahimovic tekur aukaspyrnu fyrir utan teiginn en hún fer beint í vegginn. Zlatan nær boltanum aftur og á slakt skot sem verður að sendingu á Olof Mellberg sem er einn og óvaldaður í teignum og skýtur að marki. Hart ver skotið en boltinn fer í Glen Johnson og þaðan í markið. Englendingar gríðarlega óheppnir.

46. Seinni hálfleikurinn er hafinn.

45.+1 Hálfleikur England leiðir í hálfleik og það er alveg verðskuldað. Andy Carroll skoraði markið með glæsilegum skalla en hann hefur átt góðan leik hingað til.

37. Kim Kallström með hörkuskot fyrir utan teig eftir undirbúning Zlatans en boltinn rétt yfir. Þetta var fast.

36. Ashley Young sleppur í gegn vinstra meginn eftir frábæra sendingu Ashley Cole. Fyrsta snertingin er ekki nægilega góð þannig hann gerir færið erfiðara og skotið fer í hliðarnetið. 

32. Leikurinn hefur róast töluvert eftir markið og fátt markvert gerst. Mikið miðjumoð í gangi. Zlatan reynir skot fyrir utan teig en það fer af varnarmanni og beint á Hart í markinu.

23. MARK! Staðan er 0:1. Englendingar komast yfir og það er eftir samvinnu Liverpool-mannanna, Gerrard og Carroll. Steven Gerrard á frábæra sendingu inn á teiginn, langt utan af velli og hana skallar Andy Carroll í netið, óverjandi fyrir Isakson. Carroll átti eftir að gera fullt þegar hann fékk sendinguna. Þvílíkur skalli.

20. Zlatan reynir skot af tuttugu metra færi en Joe Hart ver boltann og heldur honum. Skotið fínt, alveg í hornið.

15. Þá kom fyrsta færið. James Milner á flotta fyrirgjöf frá hægri og Danny Welbeck nær skalla að marki en framhjá.

15. Það er fínn hraði í leiknum og liðin skiptast á að sækja en það vantar færin.

7. Scott Parker á fyrstu marktilraunina í leiknum. Hann þrumar boltanum á markið fyrir utan teig en Isakson í marki Svíanna ver ágætlega.

1. Leikurin er hafinn í Kiev.

0. Verið er að leika þjóðsöngvana. Leikurinn fer að hefjast.

0. Dómari leiksins er Þjóðverjinn Florian Meyer.

0. Leikurinn fer fram á Ólympíuleikvanginum í Kiev. Veðrið í Kiev er öllu skárra en í Donetsk. Það er °19 hiti og léttskýjað.

0. England gerði jafntefli í fyrsta leik sínum gegn Frakklandi, 1:1, en Svíar töpuðu gegn Úkraínu, 2:1. Leikurinn er því gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið, ekki síst Svía sem mæta Frökkum í lokaumferðinni.

0. Byrjunarliðin eru klár. Englendingar gera eina breytingu á sínu liði. Andy Carroll kemur inn í liðið í stað Alex Oxlade-Chamberlain. Johan Elmander er einnig kominn inn í sænska liðið.

Englands: Hart; Johnson, Terry, Lescott, Cole; Milner, Gerrard, Parker, Young; Carroll Welbeck

Svíþjóðar: Isaksson, Granqvist, Mellberg, Olsson, Olsson, Svensson, Kallström, Larsson, Ibrahimovic, Elm, Elmander

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. MAÍ

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. MAÍ

Útsláttarkeppnin