Freyr horfir til HM í Frakklandi

Freyr Alexandersson stýrir sínu liði gegn Sviss í Doetinchem í …
Freyr Alexandersson stýrir sínu liði gegn Sviss í Doetinchem í gær. AFP

Freyr Alexandersson ætlar að halda áfram sem þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu eftir EM og stýra liðinu í undankeppni heimsmeistaramótsins í Frakklandi 2019.

„Ég gerði samning við KSÍ um að klára undankeppni HM með þeim og ég reikna með að það standi. Núna langar mig að klára þetta mót af krafti og hugsa ekki um neitt annað,“ sagði Freyr við mbl.is á æfingu landsliðsins í dag, daginn eftir að Ísland féll úr leik á EM með tapi gegn Sviss.

„Ég reikna með því að halda áfram að undirbúa liðið fyrir leikina í undankeppni HM eftir þetta mót. Fyrst er það leikur við Austurríki og svo klára ég að fylgja Þýskalandi eftir út þeirra riðil áður en ég tek kannski vikufrí,“ sagði Freyr. Ísland er í riðli með Evrópumeisturum Þýskalands, Tékklandi, Slóveníu og Færeyjum í undankeppni HM. Efsta liðið fer á HM og liðið í 2. sæti gæti mögulega komist í umspil (lið úr 4 af 7 riðlum leika í umspili um einn farseðil á HM).

Engin eftirsjá hjá okkur

Freyr vildi hins vegar ekki mikið ræða framhaldið hjá landsliðinu eftir EM, enda á liðið enn eftir leik við Austurríki á miðvikudag í Rotterdam:

„Við horfum bara á þennan leik og ekkert lengra. Við erum mjög stolt af frammistöðunni og kraftinum í liðinu, og öllu sem við höfum verið að gera hérna. Þetta hefur ekki dottið alveg með okkur, þó að auðvitað sköpum við okkar eigin lukku og allt það, en það eru samt atvik í þessu móti sem við ráðum ekkert við. En við viljum enda þetta mót vel, á sigri og góðri frammistöðu, þannig að við getum farið héðan með góða tilfinningu þó að við höfum ekki komist upp úr riðlinum,“ sagði Freyr. Það var skýrt markmið hans og annarra hjá landsliðinu að komast í 8-liða úrslit en nú þegar sá möguleiki er úr sögunni hefði Freyr þá viljað hafa gert eitthvað öðruvísi?

„Ég ræddi lengi við aðstoðarmenn mína í gær og við förum mjög djúpt ofan í það hvað við hefðum getað gert betur. Við reyndum að rýna í allt en það er ekkert sem við sjáum eftir. Ekkert sem við teljum hafa verið rangt. Það er samt alltaf gott að skoða hlutina og fara í þá. Við munum gera það aftur eftir mót. En það er engin eftirsjá hjá okkur, bara svekkelsi að hafa ekki náð að teygja sig yfir línuna.“

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin