Eggert ræddi við Lauren í gær

Lauren fagnar marki með Thierry Henry, félaga sínum í Arsenal.
Lauren fagnar marki með Thierry Henry, félaga sínum í Arsenal. Reuters

Eggert Magnússon, stjórnarformaður West Ham, og Alan Curbishley, knattspyrnustjóri félagsins, ræddu í gær við Lauren, hinn reynda leikmann Arsenal, um möguleikana á að hann gangi til liðs við félagið og leiki með því út þetta keppnistímabil. Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur sagt Lauren að hann geti farið frá félaginu í þessum mánuði.

Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is
"Það er rétt, ég ræddi við Lauren í síma í dag og sama er að segja um Alan. Lauren vill koma til okkar og það yrði talsverður fengur í honum. Þetta er reyndur og öflugur leikmaður sem myndi örugglega nýtast okkur vel. Það er þó eftir að fara betur yfir þetta mál og ég á ekki von á endanlegri ákvörðun í því fyrr en eftir helgina," sagði Eggert við Morgunblaðið í gærkvöld.

Lauren, sem verður þrítugur síðar í þessum mánuði, er frá Kamerún og hefur spilað með Arsenal í hálft sjöunda ár, mest sem hægri bakvörður. Hann meiddist í janúar á síðasta ári og hefur verið frá keppni þar til núna um jólin að hann varð leikfær á ný.

Enskir fjölmiðlar fullyrtu í gær að West Ham væri líka á höttunum á eftir Freddie Ljungberg, sænska landsliðsfyrirliðanum hjá Arsenal, sem er væntanlega á förum þaðan. Eggert aftók það með öllu. "Það er bókstaflega ekkert til í þeim fréttum. Ástæða þeirra er væntanlega sú að ég var staddur á æfingasvæði Arsenal ásamt öðrum manni á dögunum þar sem við ræddum við Arsene Wenger og þá fóru fjölmiðlarnir að leggja saman tvo og tvo og fengu út úr því fimm."

Þá kvaðst Eggert ekki búast við því að meira kæmi út úr áhuga West Ham á Shaun Wright-Phillips hjá Chelsea en West Ham gerði ensku meisturunum tilboð í hann á dögunum. "Við höfum ekkert heyrt frekar og það er ólíklegt að eitthvað verði úr því," sagði Eggert sem þegar hefur náð í tvo leikmenn til félagsins í janúar. Það eru Luis Boa Morte frá Fulham og Nigel Quashie frá WBA.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert