Wenger: Við misstum stjórn á okkur

Kolo Toure og John Obi Mikel voru báðir reknir af …
Kolo Toure og John Obi Mikel voru báðir reknir af velli og hér eigast þeir við í leiknum. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal sagði að hann væri vonsvikinn yfir því að sínir menn hefðu misst stjórn á sér undir lok úrslitaleiks enska deildabikarsins gegn Chelsea í dag. Uppúr sauð milli leikmanna liðanna og tveir leikmenn Arsenal, Kolo Toure og Emmanuel Adebayor, voru reknir af velli ásamt John Obi Mikel hjá Chelsea.

„Þetta fór skyndilega allt úr böndunum, það var mjög einkennilegt og ekki í takt við leikinn og gæði hans. Skyndilega misstum við stjórn á okkur, og þeir gerðu það líka þannig að úr urðu stimpingar. Ég er ekki viss um að dómarinn hafi rekið réttu mennina af velli en hann tók sínar ákvarðanir," sagði Wenger en bæði hann og José Mourinho hjá Chelsea fóru inná völlinn og reyndu að stilla til friðar.

„Fótboltamenn eiga aldrei að missa stjórn á skapi sínu, þeir eiga alltaf að halda stillingu sinni. Kolo er vanalega mjög yfirvegaður en hann var togaður niður og boltanum sparkað í burtu. Dómarinn átti ekki sök á því sem gerðist, það voru leikmennirnir sjálfir, en hann var kannski full lengi að taka ákvörðun. En við þurfum fyrst og fremst að líta í eigin barm og gæta þess að missa ekki stjórn á okkur aftur," sagði Wenger, sem kvaðst um leið mjög stoltur af sínu unga liði en eins og vanalega í deildabikarnum hvíldi hann suma af lykilmönnum sínum og lét þá yngri spila.

„Við vorum betri aðilinn á löngum köflum í leiknum og fengum tækifæri til að gera út um hann. Í fyrri hálfleik vantaði bara herslumuninn nokkrum sinnum en í þeim síðari hafði ég á tilfinningunni að það lið sem skoraði á undan myndi sigra, og það gerðu þeir. Chelsea var með heldur meiri reynslu í sínu liði og Drogba gerði útslagið. Við spiluðum sérstaklega vel og sýndum frábæran fótbolta, en maður vill að liðið láti kné fylgja kviði og nýti sín færi, og það gerðum við ekki," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert