Hargreaves á leiðinni til Manchester United

Owen Hargreaves, til hægri, virðist loksins á leiðinni til Englands.
Owen Hargreaves, til hægri, virðist loksins á leiðinni til Englands. Reuters

Owen Hargreaves, enski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, er á leiðinni til Manchester United frá Bayern München, samkvæmt vefsíðu þýska tímaritsins Spiegel. Þar er sagt að félögin hafi komist að samkomulagi um kaupverðið, sem sé 17 milljónir punda, ríflega 2,1 milljarðar króna, og aðeins eigi eftir að ganga formlega frá samningi Hargreaves við Manchester United, sem sé til fjögurra ára.

Hargreaves hefur lengi verið orðaður við Manchester United og hefur ekki farið dult með áhuga sinn á að fara til félagsins. Forráðamenn Bayern sögðu lengi vel að það kæmi ekki til greina, enda væri hann samningsbundinn þeim til ársins 2010. Franz Beckenbauere, forseti Bayern, sagði hinsvegar nýlega að Hargreaves gæti verið til sölu fyrir rétt verð, á bilinu 17-20 milljónir punda.

Owen Hargreaves er 26 ára gamall miðjumaður og lék mjög vel með enska landsliðinu á HM í Þýskalandi síðasta sumar. Hann fótbrotnaði siðan í haust og var frá keppni stóran hluta tímabilsins, og missti líka af lokaleik Bayern í þýsku 1. deildinni í dag vegna meiðsla í hné.

Hargreaves hefur verið í röðum Bayern í tíu ár, eða frá 16 ára aldri, og hefur því aldrei spilað með aðalliði neins annars félags. Hann er fæddur og uppalinn í Calgary í Kanada og hefur aldrei búið í Englandi, en foreldrar hans eru þaðan og faðir hans, Colin Hargreaves, lék á sínum tíma með Bolton Wanderers.

Bayern fékk Hargreaves til sín árið 1997 frá Calgary Foothills. Frá árinu 2000 hefur Hargreaves spilað með aðalliði Bayern og hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir England ári síðar. Hann á nú 39 A-landsleiki að baki fyrir Englands hönd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert