Shevchenko langar til Bandaríkjanna

Andriy Shevchenko þótti ekki standa fyllilega undir væntingum í vetur.
Andriy Shevchenko þótti ekki standa fyllilega undir væntingum í vetur. Reuters

Andriy Shevchenko, úkraínski knattspyrnumaðurinn sem leikur með Chelsea, kveðst hafa mikinn áhuga á að leika í Bandaríkjunum áður en ferlinum lýkur. Hann segist þó alls ekki á förum frá ensku bikarmeisturunum þrátt fyrir köflótt gengi sitt í vetur og talsverðrar gagnrýni eftir að hafa verið keyptur til félagsins fyrir 30 milljónir punda.

„Knattspyrnan er á uppleið í Bandaríkjunum og það væri gaman að taka þátt í því. Ég spilaði gegn úrvalsliði deildarinnar þar í fyrra og sá að framfarirnar eru augljósar," sagði Shevchenko við vefsíðu tímaritsins Sports Illustrated.

Hann kvaðst ekki hafa átt sitt versta tímabil á ferlinum nú í vetur. „Það er alltaf búist við miklu af mér en ég var ekki frískur fyrstu fjóra mánuðina, annars vegar var ég þreyttur eftir HM og hinsvegar var ég í basli með meiðsli. En ég náði góðum kafla á miðju tímabili og þrátt fyrir allt skoraði ég 14 mörk og lagði upp 11 eða 12 til viðbótar, og það er ekki slæmt," sagði Shevchenko.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert