Liverpool hækkar tilboðið í Ryan Babel

Ryan Babel fer líklega til Liverpool.
Ryan Babel fer líklega til Liverpool. Reuters

Talsmaður hollenska knattspyrnufélagsins Ajax segir að Liverpool hafi gert nýtt og mun hærra tilboð en áður í kantmanninn efnilega Ryan Babel. Liverpool bauð upphaflega 10 milljónir punda, rúma 1,2 milljarð króna, í Babel en talið er að nýtt boð hljóði uppá 13,5 milljónir punda, eða tæpan 1,7 milljarð króna.

„Liverpool ætlar sér að kaupa Babel og hefur gert tilboð sem er mun hærra en það fyrra. Ég held að við munum missa hann vegna þess hve staðráðnir þeir eru í að fá hann," sagði Martin van Geel, stjórnarmaður hjá Ajax, en þetta er haft eftir honum í BBC í dag.

Babel er tvítugur og vakti mikla athygli með hollenska 21-árs landsliðinu sem varð Evrópumeistari í síðasta mánuði. Hann lék 27 leiki með Ajax í hollensku úrvalsdeildinni síðasta vetur og skoraði 5 mörk en hann hefur þegar spilað í rúm þrjú ár með aðalliði félagsins. Babel hefur spilað 14 A-landsleiki fyrir Holland og skorað í þeim 4 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert