Hleb tryggði Arsenal sigur á Fulham á síðustu stundu

Cesc Fabregas hjá Arsenal og Steven Davis hjá Fulham eigast …
Cesc Fabregas hjá Arsenal og Steven Davis hjá Fulham eigast við í leiknum í dag. Reuters

Arsenal sigraði Fulham, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum, heimavelli Arsenal í dag. Fulham var yfir nær allan leikinn, David Healy skoraði eftir aðeins 52 sekúndur, en undir lokin jafnaði Robin van Persie fyrir Arsenal úr vítaspyrnu og Alexandre Hleb skoraði sigurmarkið á 90. mínútu.

Fulham fékk óskabyrjun eftir 52 sekúndur. Jens Lehmann markvörður Arsenal fékk þá boltann frá Gael Clichy, bakverði Arsenal, inni í markteig og ætlaði að senda hann aftur á Clichy en Healy komst inní sendinguna og skoraði, 0:1.

Tony Warner, markvörður Fulham, kom í veg fyrir að Arsenal jafnaði metin á lokamínútum fyrri hálfleiks en hann varði þá tvívegis úr dauðafærum, í seinna skiptið eftir að Cesc Fabregas var kominn einn innfyrir vörn Fulham.

Á 83. mínútu tók Kolo Toure mikla rispu upp völlinn og inní vítateig Fulham þar sem Carlos Bocanegra braut á honum. Robin van Persie tók vítaspyrnuna og þrumaði boltanum uppundir þverslána, 1:1.

Það var svo á síðustu mínútu í venjulegum leiktíma sem Fabregas átti sendingu innfyrir vörnina á Hleb sem sneri af sér varnarmann og skoraði sigurmarkið með góðu skoti, 2:1.

Lið Arsenal: Jens Lehmann, Bacary Sagna, Kolo Toure, William Gallas, Gael Clichy, Emmanuel Eboue, Cesc Fabregas, Matieu Flamini, Tomas Rosicky, Alexander Hleb, Robin van Persie.
Varamenn: Manuel Almunia, Philippe Senderos, Alexandre Song, Niklas Bendtner, Theo Walcott.

David Healy fagnar eftir að hafa komið Fulham yfir á …
David Healy fagnar eftir að hafa komið Fulham yfir á fyrstu mínútunni. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert