Grant tekinn við liði Chelsea

Avram Grant, til hægri, ásamt Peter Kenyon framkvæmdastjóra Chelsea,
Avram Grant, til hægri, ásamt Peter Kenyon framkvæmdastjóra Chelsea, Reuters

Ísraelinn Avram Grant hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri hjá Chelsea í stað Jose Mourinho og mun Steve Clark verða hans aðstoðarmaður. Frá þessum var greint á vef Chelsea nú rétt í þessu. Fyrsti leikur Chelsea undir stjórn Grants er gegn Englandsmeisturum Manchester United á Old Trafford á sunnudaginn.

Grant, sem er 52 ára gamall, var í sumar ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Chelsea í óþökk Mourinho en hann er náinn vinur Roman Abramovich, eiganda Chelsea. Þar áður gegndi Grant samskonar störfum hjá Portsmouth. Hann var um tíma landsliðsþjálfari Ísrela og var þjálfari ísraelsku liðanna Maccabi Tel-Aviv og Maccabi Haifa.

Avi Cohen formaðaur ísraelska knattspyrnusambandsins gefur Grant sín bestu meðmæli en þeir eru miklir vinir. ,,Avram Grant náði mjög góðum árangri með þau lið hann þjálfaði í Ísrael. Hann vann nokkra meistaratitla með þeim og hann veit hvað fótboltinn snýst um. Ég neita því ekki að fréttirnar um ráðningu hans komu mér á óvart," sagði Cohen í viðtali við fréttavef BBC.

Steve Clark er fyrrum leikmaður Chelsea og er sá fimmti leikjahæsti í sögu félagsins. Hann var aðstoðarmaður Mourinho og var einnig hægri hönd Ruud Gullitt þegar hann stýrði Newcastle-liðinu.

Á vef Chelsea kemur fram að þeir Grant og Clark njóti fulls trausts hjá stjórn félagsins og þar segir ennfremur; ,,Félagið er ánægt með Avram. Hann er reynslumikill sem getur komið til starfa á erfiðum tímum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert