Verður flótti frá Chelsea?

Ricardo Carvalho; ,,Sorgardagur fyrir mig og félagið.
Ricardo Carvalho; ,,Sorgardagur fyrir mig og félagið." Reuters

Chelsea gæti lent í erfiðleikum með að halda nokkrum lykilmönnum sínum í kjölfar brotthvarfs Jose Mourinho frá félaginu og herma fregnir að nokkrar helstu stjörnur félagsins íhugi að yfirgefa liðið.

,,Þetta var sorgardagur fyrir mig og liðið. Ég hafði undir höndum freistandi tilboð frá Real Madrid en ég ákvað að halda kyrru fyrir hjá Chelsea vegna Mourinho," segir portúgalski varnarmaðurinn Ricardo Carvalho.

Franski landsliðsmaðurinn Florent Malouda tekur í svipaðan streng; ,,Ég ákvað að koma til Chelsea og þar réði úrslitum var þegar ég hitti Mourinho í fyrsta sinn," segir Malouda.

Fílabeinsstrendingurinn Didier Drogba er sagður hafa tekið mest inn á sig brotthvarf Mourinho og greina breskir fjölmiðlar frá því að hann hafi fellt tár þegar Mourinho mætti á æfingasvæðið í gær þar sem hann kvaddi fyrrum lærisveina sína. Drogba brást mjög illur við þegar hann frétti um viðskilnað Mourinho en hann segist eiga Portúgalanum mikið að þakka.

Michael Essien og Paulo Ferreira, sem báðir komu til Chelsea eftir að Mourinho tók til starfa hjá félaginu, hyggjast meta sína stöðu upp á nýtt og þá er ekki ólíklegt að Frank Lampard geri slíkt hið sama. Lampard hefur undanfarin ár verið sterklega orðaður við Barcelona og þá hafa Spánarmeistarar Real Madrid einnig sýnt honum áhuga en miðjumaðurinn snjalli átti mjög náið samband við Mourinho.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert